Segir mikið fylgi ákall um kerfisbreytingar

02.02.2016 - 12:50
Mynd með færslu
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.  Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir viðvarandi fylgi þeirra í könnunum lýsa að hluta til vantrausti á kerfinu, stjórnsýslunni og stjórnmálunum. Helgi Hrafn segir þetta ákall.

Píratar fengu 35,3 prósent í Gallup könnun sem sagt var frá í gær, sem er viðvarandi þriðjungsfylgi mánuðum saman.  

Helgi Hrafn telur þetta fylgi segja að almenningur vilji að honum sé hleypt að og hann fái að vera með á eigin forsendum: „Ég get ekki túlkað þetta öðru vísi heldur en þetta sé ákall um kerfisbreytingar, frekar en að fá inn eitthvað séstakt fólk. Þá frekar að fá einhverja umgjörð í lagasetningaferlið fyrst og fremst, en síðan bara í stjórnsýsluna líka, sem hleypir almenningi að á hans eigin forsendum, ekki bara út frá forsendum stjórnmálamanna".

Þannig að þetta sé vantraust á kerfinu, stjórnsýslunni og stjórnmálamönnum?

„Já, ég held allavega það að það sé veigamikill hluti af þessu", sagði Helgi 

Björt framtíð fær 3,6 prósent í sömu könnun og er langt frá því að ná manni á þing og segir Óttarr Proppé erfitt að ráða í þessar tölur, hann sé ósáttur en ljóst að margir kjósendur séu að leita sér að föstu landi: „Við erum svo sem hundfúl yfir þessari stöðu og finnst þessi skilaboð að mörgu leyti vera ósanngjörn, vegna þess að við höfum tekið okkar ábyrgð mjög alvarlega. Höfum verið að berjast fyrir umbótum og jafnvel róttækum umbótum á íslensku samfélagi og gert það af miklum krafti, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum. Ég upplifi sterkt óþol í íslensku samfélagi".