Segir mál Downeys vísbendingu um leyndarhyggju

13.09.2017 - 19:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingmaður Pírata segir leyndarhyggju hafa ríkt í máli Roberts Downey, sem fékk uppreist æru í fyrra. Gögnin sem nú hafa komið í dagsljósið sýni að málið fékk ekki hefðbundna afgreiðslu innan dómsmálaráðuneytisins.

Dómsmálaráðuneytið birti í gær gögn varðandi umsókn Roberts Downey um uppreist æru, samkvæmt ákvörðun Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í framhaldinu ætlar ráðuneytið að birta sambærileg gögn annarra sem fengið hafa uppreist æru frá 1995. Ráðuneytið hafði neitað að afhenda gögnin, og einungis þingmönnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var leyft að sjá þau. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata sem situr í allsherjar- og menntamálanefnd, segir mál Roberts Downey merki um tregðu stjórnvalda til að veita fjölmiðlum og almenningi upplýsingar. „Mér finnst þetta í fyrsta lagi staðfesting á mjög skaðlegu viðhorfi innan dómsmálaráðuneytisins og kannski stjórnsýslunnar í heild, þegar kemur að því að veita bæði fjölmiðlum og almenningi upplýsingar þegar eftir þeim er kallað. Þetta er vísbending um leyndarhyggju, sem við í Pírötum höfum lengi bent á, og skort á vilja til þess að upplýsa almenning um hluti sem raunverulega varðar hann.“

„Ekki vélræn afgreiðsla“

Þórhildur Sunna fór í síðasta mánuði fram á opinn fund allsherjar- og menntamálanefndar til að ræða um veitingu uppreistar æru. Dómsmálaráðherra sat þar fyrir svörum, ásamt föður einnar stúlkunnar, sem Robert var dæmdur fyrir að misnota. Þórhildur segir að gögnin sýni að umsókn Roberts var ekki afgreidd með hefðbundnum hætti, og að afgreiðslan var ekki vélræn líkt og sagt hefur verið. „Robert Downey fékk meðferð samkvæmt undanþágureglu sem að ber að skýra þröngt, og engar röksemdir bárust um hvers vegna ákveðið var að beita undanþágu í þessu tilviki. Það er mjög alvarlegt ef að við skoðum dómsmálaráðuneytið sem stjórnsýslustofnun, sem ber að rökstyðja sína úrskurði, og sem ber að hafa rannsóknarreglu að leiðarljósi.“

Þingmenn Pírata hafa óskað eftir opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem dómsmálaráðherra sitji fyrir svörum. Ráðherra gafst ekki tími til að veita fréttastofu viðtal fyrir sjónvarpsfréttir, en ræðir við fréttastofu á morgun.