Segir flutning Aldísar tímabundinn

22.01.2016 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  RUV
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, segir að flutningur Aldísar Hilmarsdóttur, yfirmanns fíkniefnadeildar í dag, tengist ekki „með neinu móti“ kvörtun Aldísar og fundi hennar með innanríkisráðherra fyrr í þessum mánuði. Á þeim fundi kom Aldís á framfæri óánægju sinni með stjórnunarhætti lögreglustjórans og viðraði áhyggjur sínar af almennum og langvarandi samskiptavanda innan embættisins við lögreglustjórann.

Alda Hrönn vildi ekki tjá sig hvort Aldís hefði samþykkt þennan flutning.  Hún sagði að þetta ætti að vera tímabundin ráðstöfun „til að innleiða framtíðar-skipulag miðlægrar rannsóknardeildar á skipulagðri glæpastarfsemi.“

Alda Hrönn segir að óeining hafi verið innan deildarinnar og því hafi utanaðkomandi aðili verið fenginn til að stýra deildinni næsta hálfa árið til að greiða úr þeirri flækju. Sá sem mun stýra starfi fíkniefnadeildarinnar í stað Aldísar  er Runólfur Þórhallsson - hann kemur frá embætti ríkislögreglustjóra.

Nýverið var greint frá því að hópur fíkniefnalögreglumanna hefði farið til Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns á greiningardeild ríkislögreglustjóra og fyrrverandi yfirmanns fíkniefnadeildar, þar sem þeir komu á framfæri kvörtunum sínum undan lögreglufulltrúa sem nú er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, hefur sömuleiðis staðfest að honum hafi borist kvartanir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Aldís leitað til lögfræðings sem mun krefja lögreglustjóra um skýringar á þessum flutningum. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er von á þeim rökstuðningi innan hálfs mánaðar.  Aldís vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu.

Í síðustu viku greindu bæði Fréttatíminn og Visir.is frá því að staða Aldísar innan yfirstjórnar lögreglunnar væri veik. Fréttastofa sendi á miðvikudag fyrirspurn til Sigríðar Bjarkar um hvort hún bæri fullt traust til yfirmanns fíkniefnadeildar - ekkert svar barst við þeirri fyrirspurn.

Í síðustu viku fór Aldís á fund Ólafar Nordal innanríkisráðherra og kvartaði undan starfsháttum og framkomu Sigríðar Bjarkar.  Þessi nýjasta vending á lögreglustöðinni er enn ein birtingarmynd þess ástands sem þar virðist ríkja.  

Tveir fíkniefnalögreglumenn eru undir rannsókn vegna meintra brota í starfi, hópur lögreglumanna hefur leitað til Landssambands lögreglumanna vegna framgöngu lögreglustjóra og að minnsta kosti sjö aðrir starfsmenn hafa leitað til innanríkisráðuneytisins.   

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV