Segir flugumferðarstjóra leita til útlanda

29.02.2016 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Fyrsti samningafundur flugumferðarstjóra og vðsemjenda þeirra hjá ríkissáttasemjara stendur yfir. Formaður Félags íslenskra segir flugumferðarstjóra miða launakröfur sínar við kjör kollega þeirra í útlöndum. Álagið hafi aukist mikið með auknum ferðamannastraumi.

Flugumferðarstjórar komu til fyrsta samningafundar hjá ríkissáttasemjara klukkan tvö, en deilu þeirra við Isavia var vísað þangað í síðustu viku. Sigurjón Jónasson formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra  vildi í samtali vð fréttastofun ekki gefa upp kröfur flugumferðarstjóra, en sagði það ekkert launungamál að þeir líti svo á að kaupmáttur þeirra sé lágur miðað við flugumferðarstjóra í öðrum löndum og að þeir fari fram á að ábyrgð þeirra verði metin til fjár. Hann segir eðlilegt að miða við kaupmátt í öðrum löndum því ekki sé til nein viðmiðunarsétt hérlendis, engin önnur stétt sýsli með jafnmörg mannslíf daglega og flugumferðarstjórar gera. Þá segir hann fólksflótta úr stéttinni til útlanda og það sárvanti flugumferðarstjóra til starfa hér.  Á sama tíma  hafi álag snaraukist með auknum straumi ferðamanna hingað til lands. Hann segir að ekki hafi verið boðað til neinna aðgerða enn sem komið er. Flugumferðarstjórar hafa verið með lausan samning í mánuð, en samningur sem þeir gerðu fyrir fimm árum rann út 1. febrúar. 

Fundur verður hjá ríkissáttasemjara klukkan þrjú í dag í kjaradeilu starfsmanna álversins í Straumsvík og Rio Tinto Alcan. Kolbeinn Gunnarsson, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar, segir að lítið hafi heyrst frá Rio Tinto en vonast til að fundurinn gefi tilefni til áframhaldandi viðræðna. Kjarasamningarnir hafa verið lausir í 14 mánuði. 

Í gildi er bann á útskipun á áli frá Straumsvík. Til ágreinings kom fyrir skömmu þegar yfirmenn gengu í störf hafnarstarfsmanna. Nú er skip í höfninni í Straumsvík en Kolbeinn vonast til að komist verði hjá ágreiningi. Verkfallsgæsla verður á staðnum. Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, segir að það skýrist í dag, hvort látið verði reyna á það fyrir félagsdómi hverjir megi ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Hann segir að ekki verði staðið í neinum átökum, farið verði að lögum.

Samninganefnd Sjúkraliðafélags Íslands og sveitarfélaganna funda einnig hjá ríkissáttasemjara í dag og þar verður einnig vinnufundur milli sveitarfélaganna og slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV