Segir að Trump verði að selja allt sitt

12.01.2017 - 07:33
epa05708068 US President-elect Donald Trump speaks with journalists in the lobby of Trump Tower, after meeting with LVHM Fashion's Alexandre and Bernard Arnault, New York, New York, USA, 09 January 2017.  EPA/ALBIN LOHR-JONES / POOL
 Mynd: EPA  -  POLARIS IMAGES POOL
Forstjóri Siðaskrifstofu Bandaríkjastjórnar gagnrýnir harðlega áform Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, um að láta viðskiptaveldi sitt í hendur sona sinna áður en hann tekur við embætti þann 20. þessa mánaðar. Forstjórinn, Walter Shaub, segir að það fullnægi engan veginn lagaskilyrðum og siðferðisviðmiðum Bandaríkjaforseta síðustu 40 ára.

 

Forstjóri Siðaskrifstofu Bandaríkjastjórnar gagnrýnir harðlega þau áform Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, að láta viðskiptaveldi sitt í hendur sona sinna áður en hann tekur við embætti þann 20. þessa mánaðar. 

Forstjórinn, Walter Shaub, segir að það fullnægi engan veginn lagaskilyrðum og siðferðisviðmiðum Bandaríkjaforseta síðustu 40 ára. Segir hann að allir forsetar síðari tíma hafi gengist undir þá kvöð að losa sig við öll ítök í viðskiptaheiminum. Vísar hann til ferlis sem felst í því að verðandi forseti selur öll hlutabréf sín og eignarhluta í fyrirtækjum og setur söluandvirðið inn í sérstakan fjárfestingarsjóð í umsjá óháðs fjárhaldsmanns. Sá hefur það hlutverk að sjá um allt sem viðkemur sjóðnum en forsetinn fær engar upplýsingar um í hverju er fjárfest og hvenær. Áætlun Trumps gengur aftur á móti út á að eignir hans renni allar í fjárfestingarsjóð sem stýrt yrði af sonum Trumps, Don og Eric, og helsta fjármálaráðgjafa hans, Allen Weisselberg.

Shaub segir að þetta nægi engan veginn til að koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra. Trump myndi alltaf fá fréttir af viðskiptum þessa fjárfestingarsjóðs, jafnt í fjölmiðlum sem í gegnum þá sem sjóðnum stýra, og því í kjöraðstöðu til að hafa áhrif á ýmsa lund. Sú yrði ekki raunin ef þetta væri nafnlaus fjárfestingarsjóður sem óháður aðili stýrir, eins og tíðkast hefur undanfarna áratugi og er í raun eina, ásættanlega lausnin.