Saumastofumaður tvisvar í nálgunarbann

20.02.2016 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Maðurinn sem handtekinn var í Vík í Mýrdal á fimmtudag, grunaður um mansal, hefur tvívegis verið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart eiginkonu sinni. Núna er í gildi nálgunarbann sem bíður staðfestingar dómstóla.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur konan fengið úrskurðað nálgunarbann á eiginmann sinn vegna heimilisofbeldis. Þau eru bæði frá Sri Lanka, sem og konurnar tvær sem lögregla frelsaði á fimmtudag. Hjónin stofnuðu saman fyrirtækið Vonta International í júlí 2014 og hefur fyrirtækið meðal annars verið undirverktaki hjá Icewear. Það fyrirtæki keypti Víkurprjón vorið 2012. Samkvæmt upplýsingum lögmanns konunnar hefur hún ekki verið handtekin og hefur ekki réttarstöðu sakbornings. Eiginmaður hennar hefur verið úrskurðaður í nálgunarbann sem bíður staðfestingar dómstóla. Þetta er í annað skiptið sem konan fær nálgunarbann á manninn, hið fyrra var í nóvember. 

Fréttastofa hefur reynt að fá upplýsingar um líðan kvennanna tveggja en án árangurs. Í mansalsmálum er ræst hjálparteymi fyrir fórnarlömb og þeim boðin sálgæsla, heilbrigðisþjónusta og lögregluvernd. 

Eiginkona mannsins, sem hnepptur hefur verið í gæsluvarðhald, hefur búið hér á landi í ellefu ár en eiginmaðurinn mun skemur. Fréttastofa reyndi að ná tali af eiginkonunni en samkvæmt upplýsingum lögmanns hennar treystir hún sér ekki til þess að veita viðtal.