Sáttafundur hjá tónlistarkennurum í dag

04.11.2014 - 13:26
Mynd með færslu
Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir Félags tónlistarskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga til sáttafundar í dag. Verkfall félagsmanna hefur nú staðið í tvær vikur.

Tónlistarskólakennarar ætla að mæta á áheyrendapalla á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur eftir hádegi í dag til að leggja áherslur á kröfur sínar.

Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistaskólakennara, segir lítið hafa þokast í samkomulagsátt: „Ja, kannski má segja að rót vandans sé stærri en okkur grunar. Kannski liggur hún í því að tónlistarskólakerfið í landinu hefur verið hálf munaðarlaust má segja síðastliðinn áratug. Við erum í hálfgerðu tómarúmi, lendum á milli stafs og bryggju í ýmsum málum, hvort tilheyrum við menntun eða menningu og hver vill eiga okkur. Hver fer með okkar málefni? Við auglýsum eftir eiganda kerfisins, sem vill axla þá ábyrgð sem því fylgir að reka svona kerfi. Ég er farin að hallast að því að þetta sé nú vandamálið".

Tónlistarskólakennarar eru í tveimur félögum, Félagi tónlistarskólakennara - FT og Félagi íslenskra hljómlistarmanna - FÍH. Þriðjungur kennaranna er í FÍH og það félag hefur þegar samið við Samband íslenskra sveitarfélaga. Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að félögum í FT hafi verið boðin sama launahækkun og kennurum innan FÍH, eða 7,5 prósent. Samningafundur hefst hjá ríkissáttasemjara klukkan þrjú í dag.