Samkeppniseftirlitið setti engin tímamörk

22.01.2016 - 10:41
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn Landsbankinn
Samkeppniseftirlitið þvertekur fyrir að hafa þrýst á bankann að selja hlut sinn í Borgun. Landsbankinn segir að eftirlitið hafi þrýst á að eignarhaldi kortafyrirtækjanna yrði breytt þannig að einn banki væri í eigendahópi hvers fyrirtækis. Staða bankans í kortafyrirtækjunum Valitor og Borgun hafi verið veik.

Landsbankinn seldi 31,2% hlut í kortafyrirtækinu Borgun fyrir 2,2 milljarða króna sumarið 2014. Landsbankinn fær ekki hlut í hagnaði Borgunar vegna yfirtöku Visa á Visa í Evrópu. Hagnaður íslensku kortafyrirtækjanna vegna viðskiptanna er talinn nema vel á annan tug milljarða króna.

Salan var umdeild en Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, efast um að kaupendur hafi vitað af væntanlegum milljarðatækifærum þegar þeir keyptu hlutinn. Hann segir að samkeppniseftirlitið hafi þrýst á bankana að selja eignarhlut sinn í kortafyrirtækjunum. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að Landsbankinn hafi selt sinn hlut í Borgun áður en eftirlitið hafi lokið sátt við bankann um að takmarka eignarhlut hans. Sala bankans á hlutum í Borgun og Valitor hafi því alfarið verið á forræði og ábyrgð Landsbankans. 

Í svari Landsbankans við fyrirspurn fréttastofu segir að staða bankans í Valitor og Borgun hafi verið veik. Bankinn hafi verið minnihlutaeigandi í báðum félögum og aðeins geta verið með óháða stjórnarmenn. Bankinn hafi því ekki getað haft áhrif á rekstur eða stefnu þeirra þrátt fyrir að vera með verulegt fé bundið í félögunum. Áform Borgunar um að hasla sér völl erlendis hafi þótt áhættusöm. Gott verð hafi fengist fyrir hlutinn og bankinn hafi ekki séð fyrir háar viðbótargreiðslur vegna samruna við Visa í Evrópu þrátt fyrir að yfirtakan hafi verið í deiglunni síðan 2007.

Samkeppniseftirlitið taldi 2013 að brot hefðu átt sér stað á samkeppnislögum er varðaði aðkomu bankanna að greiðslukortafyrirtækjunum. Fyrirtækin tvö höfðu verið í sameiginlegri eigu keppinauta á fjármálamarkaði og sú skipan var að mati eftirlitsins ein af meginástæðum samkeppnishindrana.

Í svari Landsbankans segir að það hafi verið frummat eftirlitsins að í því samhengi væri sérstaklega varhugavert að eignarhald greiðslukortafyrirtækja væri sameiginlegt og að nauðsynlegt væri að beita úrræðum er lytu að skipulagi markaðar til þess að uppræta samkeppnisvandamál sem væru til staðar á greiðslukortamarkaði. Þar segir einnig að af hálfu Landsbankans var því ljóst að Samkeppniseftirlitið lagði mikla áherslu á að gerðar yrðu breytingar á eignarhaldi á kortafyrirtækjunum. Samkeppniseftirlitið lagði ekki fyrir bankann hvernig útfæra ætti söluskilmála eða viðskiptakjör vegna sölu bankans á hlutum sínum í kortafyrirtækjunum. Hins vegar hafði framangreind afstaða Samkeppniseftirlitsins til sameiginlegs eignarhalds veruleg áhrif á ákvörðun bankans um að selja hluti sína í fyrirtækjunum og var að mati bankans lykilatriði í lausn málsins.