Samið um stærsta þéttingarverkefni borgarinnar

22.01.2016 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg  -  Skipulagstillaga Vogabyggðar
Samningar um uppbyggingu á hluta Vogabyggðar voru undirritaðir í dag. Þar eiga að rísa allt að 1300 íbúðir. Borgarstjóri segir að nú sé komið að stað stærsta þéttingarverkefni í sögu borgarinnar.

 

Samningarnir eru á milli Reykjavíkurborgar, Gámaþjónustunnar sem á eina stærstu lóðina í hverfinu, og félagsins Vogabyggðar, dótturfélags Hamla sem er í eigu Landsbankans. Samkvæmt samningnum taka lóðarhafar þátt í kostnaði við breytingar á innviðum þess hluta hverfisins sem lóðirnar eru á. Það er svokallað svæði tvö, sem nær frá Kleppsmýrarvegi að Tranarvogi.

Með samkomulaginu getur Reykjavíkurborg hafið deiliskipulagsvinnu á þremur lóðum við Dugguvog og sex lóðum við Súðavog. Þar með er búið að ná samkomulagi við ríflega 70% lóðareigenda á svæði tvö í Vogabyggð.

„Þessir samningar núna hleypa af stað stærsta þéttingarverkefni í sögu borgarinnar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Hverfið hefur verið að mestu leyti iðnaðarsvæði. Nýjar áætlanir gera ráð fyrir 1100-1300 íbúðum, sem er veruleg fjölgun, auk 56 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði. Gert er ráð fyrir torgum, stígum, strandstígum og landfyllingum og áhersla verður lögð á fjölbreyttan ferðamáta.

Dagur segir að byggðin í hverfinu verði mjög blönduð. „En það sem er nýtt er að við tryggjum okkur í gegnum samningana að um fjórðungur þeirra íbúða sem munu rísa hérna verða leiguíbúðir fyrir fólk af öllum stærðum og gerðum.“

Dagur segir svæðið sem nú sé samið um það langstærsta í hverfinu. „Við erum að semja við aðila á hinum svæðunum líka. Okkur liggur ekki eins mikið á þar en við viljum engu að síður að allt svæðið byggist upp sem ein heild.“

Samkvæmt áætlun verður nýtt deiliskipulag klárað á þessu ári. Að því loknu tekur við hönnun á götum og byggingum. „Eftir 3-5 ár þá vonumst við til þess að fyrstu húsin verði farin að rísa og að nýir íbúar geti farið að flytja inn í kringum 2020.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV