Sama fólkið í flestum stjórnum

05.08.2012 - 18:04
Mynd með færslu
Átta félög koma að rekstri Hörpu. Sama fólkið situr meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fær greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.

Efst í skipuritinu trónir Austurhöfn. Þar sitja sjö fulltrúar ríkis og borgar. Þeir funda hálfsmánaðarlega og fá samkvæmt ársgömlum upplýsingum frá Alþingi tæpar 60.000 krónur á mánuði og formaður tvisvar sinnum meira.

Þetta fólk situr ekki í stjórnum annarra félaga, tengdum Hörpu. Það breytist hins vegar verulega þegar við kíkjum á næsta félag; eignarhaldsfélagið Portus. Þar sitja fimm í stjórn. Ef við byrjum á Þórunni Sigurðardóttur þá situr hún einnig í stjórn Ago. Næst kemur Svanhildur Konráðsdóttir. Hún situr í þremur stjórnum; Portus, Ago og Hospes.

Stjórnarformaður í fimm stjórnum

Þá kemur Haraldur Flosi Tryggvason. Hann situr í fjórum stjórnum; Portus, Totus, Situs og Custos. Loks kemur Björn L. Bergsson. Hann situr í fimm stjórnum, Portus, Totus, Situs, Hospes og Custos. Svo er rúsínan í pylsuendanum, sjálfur stjórnarformaðurinn Pétur J. Eiríksson. Hann situr í sex stjórnum, Portus, Ago, Totus, Situs, Hospes og Custos, og hann er stjórnarformaður í fimm af þessum stjórnum.

Skipulagt af einkaaðilum

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að ákveðið hafi verið á sínum tíma að láta sama fólkið sitja í mörgum stjórnum til að einfalda málin og einbeita sér að því að ljúka byggingunni. Þetta sé skipulag sem einkaaðilar hafi lagt upp með, en legið hafi fyrir þegar ríki og borg tóku við rekstrinum að þessu yrði að breyta, enda fylgi þessu mikill aukakostnaður.

„Ja, það hefur auðvitað verið greitt fyrir þóknun í hverri stjórn,“ segir menntamálaráðherra aðspurð um launakostnað stjórnarmanna. Ein af þeim röksemdum sem einn heimildarmaður fréttastofu nefndi sem ástæðu þess að hafa átta félög og átta stjórnir í kringum tónlistarhúsið, voru að hver stjórn gæti þá sérhæft sig á sínu sviði. Því liggur fyrir að sumir stjórnarmanna hafa sérhæft sig í mjög mörgu þegar kemur að rekstri Hörpu.