Sakar Tyrki um að hjálpa smyglurum

epa05101317 Greek President Prokopis Pavlopoulos attends the Gaidar Forum in Moscow, Russia, 14 January 2016. The Gaidar Forum, entitled 'Russia and the World: Looking to the Future', runs from 13 to 15 January.  EPA/MAXIM SHIPENKOV
 Mynd: EPA
Forseti Grikklands sakar stjórnvöld í Tyrklandi um að vinna með smyglurum, sem flytja flóttafólk frá Tyrklandi til Grikklands. Prokopis Pavlopoulos Grikklandsforseti segist í viðtali við þýska blaðið Süddeutsche Zeitung hafa sterkan grun um að tyrkneskir smyglarar fái aðstoð frá yfirvöldum, einkum og sér í lagi hafnaryfirvöldum, sem láti eins og þau verði ekki vör við neitt. Pavlopoulos fullyrðir að Grikkir hafi sannanir fyrir þessu. Starfsemi smyglaranna sé í raun einskonar þrælasala.

Forsetinn fer í opinbera heimsókn til Þýskalands á mánudag, þar sem hann mun funda með Joachim Gauck, Þýskalandsforseta, og Angelu Merkel, kanslara. Um 2.2 milljónir sýrlenskra flóttamanna eru í Tyrklandi, en hundruð þúsunda flóttamanna voru flutt á bátum frá Tyrklandi til grískra eyja í fyrra.

Evrópusambandið samdi við Tyrklandsstjórn um að þar í landi yrði gripið til aðgerða, til að draga úr flóttamannastraumnum til Evrópu. Á móti fá Tyrkir ríflega þriggja milljarða evra fjárhagsaðstoð, auk þess sem tyrkneskir ríkisborgarar eiga nú greiðari leið til Evrópusambandsins en áður og jafnvel er rætt um að aðildarviðræður Tyrkja við sambandið verði dregnar upp úr saltinu sem þær hafa legið í árum saman.

Pavloupoulos segir í viðtalinu að Tyrkir hafi ekkert gert til að hindra för flóttafólks þaðan til Grikklands og þvertekur fyrir að Grikkir leggi sitt í fjárhagsaðstoðarpúkkið, fyrr en Tyrkir standi við sinn hluta samkomulagsins. Það hafi þeir enn ekki gert.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV