Sakar lögreglu um rangar sakargiftir

06.03.2015 - 19:48
Mynd með færslu
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Mynd: RÚV.  Mynd: RÚV  -  RUV
Verjandi lögreglumannsins í LÖKE-málinu sakar Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóra á Suðurnesjum, um rangar sakargiftir í málinu. Alda Hrönn vísar þessu á bug.

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að falla frá öðrum af tveimur ákæruliðum í sakamáli gegn lögreglumanni, í máli sem kennt er við LÖKE, málaskrá lögreglunnar. Samkvæmt ríkissaksóknara bentu gögn málsins til þess að lögreglumaðurinn hefði skoðað upplýsingar um 41 konu, án þess að það tengdist starfi hans og hann þannig misnotað aðstöðu sína. Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að í ljós hafi komið að gögn sem ákæran byggði á hafi ekki reynst alls kostar rétt.  Í ljós hafi komið að ekki væri hægt að útiloka að í meirihluta tilvika hafi uppflettingarnar tengst starfi lögreglumannsins. Embættið beri fulla ábyrgð á þessu.

Garðar St. Ólafsson, verjandi lögreglumannsins, segir að embætti ríkissaksóknara beri mikla ábyrgð í málinu.

„Svo ber hins vegar lögreglan á Suðurnesjum mikla ábyrgð á því hvernig þessi rannsókn var framkvæmd og ekki síst á því hvernig hún hófst. Því það er aðstoðarlögreglustjórinn á Suðurnesjum sem hefur einhvers konar einkarannsókn án umboðs ríkissaksóknara. Kallar eftir miklu af viðkvæmum persónuupplýsingum frá ríkislögreglustjóra án þess að hafa nokkurn tímann fengið umboð til að mega gera það. Og virðist njósna um einkalíf þriggja manna með því að skoða Facebook-gögn þeirra og segir svo í skjali að þessi gögn sýni fram á hitt og þetta. Þessi gögn sýndu aldrei fram á neitt. Það tók einn vinnudag eins tæknimanns að afsanna allar þær fullyrðingar,“ segir Garðar.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, þáverandi aðstoðarlögreglustjóri á Suðurnesjum og núverandi aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vísaði ásökunum Garðars á bug í skriflegu svari til fréttastofu í dag. Ríkissaksóknari hafi farið með rannsókn málsins líkt og lögreglulög geri ráð fyrir. Þar segir að ríkissaksóknari annist rannsóknir vegna ætlaðra brota lögreglumanna. Alda Hrönn bendir þó á að lögreglu beri að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn slíkra mála.

„Það er alveg satt,“ segir Garðar. „Ríkissaksóknari ber formlega ábyrgð á því að fara með rannsókn á öllum kærum gegn lögreglumönnum. Alda Hrönn hefði aldrei átt að fara með rannsókn þessa máls. Það sem gerist hins vegar er að Alda Hrönn virðist byrja einhvers konar einkarannsókn í október 2013 gegn þremur mönnum. Ég veit ekki af hverju og ég veit ekki hvaða umboð hún taldi sig hafa. En svo skrifar hún að því er virðist kæru til ríkissaksóknara 2. apríl 2014 og fær í framhaldi af því bréf frá ríkissaksóknara 11. apríl þar sem henni er falið, í umboði ríkissaksóknara, að sjá um þessa rannsókn,“ segir Garðar. 

Ætlar að krefjast bóta

Hinn liður ákærunnar gegn lögreglumanninum stendur hins vegar óhaggaður, en hann lýtur að því að opinber starfsmaður segi frá því sem leynt á að fara, og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu. Lögreglumanninum er gefið að sök hafa sent tölvuskeyti á Facebook til annars manns með nafni og lýsingu á 13 ára dreng sem hann hafði haft afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður, auk upplýsinga um ástæðu afskiptanna.

„Það er alveg rétt,“ segir Garðar. „Það er dómara að skera úr um það hvort það feli í sér brot gegn 136. grein almennra hegningarlaga að segja vini sínum í trúnaði að tiltekinn maður hafi beitt sig ofbeldi. Það er hins vegar ekki gerð refsikrafa. Það er ekki gerð málskostnaðarkrafa og það er samkvæmt því sem saksóknari segir vegna þess að þeir gera sér grein fyrir að brotið er smávægilegt. Þeir telja engu að síður að um tæknilegt brot sé að ræða. En það er í algjöru ósamræmi við öll fordæmi sem ríkissaksóknari hefur áður gefið út. Þar kemur fram að það geti aldrei nokkurn tímann verið brot á 136. greininni nema menn geri það vísvitandi að greina frá einhverju sem leynt á að fara vegna almanna- og einkahagsmuna í lögreglurannsóknum. Þetta átti ekki við. Maður í uppnámi segir trúnaðarvini sínum að hann hafi verið skallaður án þess að segja að það hafi verið við lögreglustörf. En auðvitað hefði hann kannski mátt fara varlegar og tala um þetta í einrúmi frekar en á Facebook.“

Garðar segir að mannorð lögreglumannsins sé í molum. 

„Skjólstæðingur minn hlýtur náttúrulega að leita réttar síns. Hann hlýtur að biðja um skaðabætur. Hann vonar að það þurfi ekki að gerast í dómsal. Nú eru viðurkennd mistök og það er eðlilegt að íslenska ríkið reyni að semja um þær skaðabætur,“ segir Garðar. „Umbjóðandi minn hefur verið sakaður um ótrúlegustu hluti. Hann hefur verið nafngreindur og myndir hafa verið birtar af honum í öllum fjölmiðlum og í sjónvarpsfréttum. En hættan er að fleiri muni eftir ásökunum en því að þær voru tilhæfulausar. Það eru engar kröfur hægt að gera fyrir dómi um að endurheimta mannorð. Við getum krafist þess að hann fái aftur vinnuna og þess að hann fái bætur, en það verður engum fullbætt það sem hefur verið gert í þessu máli.“