Sækja til Íslands til að fá frítt uppihald

17.01.2013 - 18:30
Mynd með færslu
Útlendingastofnun hafa aldrei borist fleiri umsóknir frá hælisleitendum en í fyrra. Forstjóri segir suma líta á Ísland sem fýsilegan kost því úrvinnsla þeirra sé svo tímafrek. Á meðan kynni þeir sér land og þjóð og fái frítt uppihald.

115 umsóknir hælisleitenda höfðu borist Útlendingastofnun í lok árs 2012. Árið 2011 voru þær 76 og 2010, 51. Þessi mikla aukning gerir það að verkum að það hægir á umsóknarferlinu og dvelur fólk því lengur hér, á kostnað ríkisins. Árið 2011 var fjöldi dvalardaga 13.565. Í lok síðasta árs voru þeir 28.799. Kostnaður við málaflokkinn fór úr 108 milljónum í 220 milljónir. Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segist nú búast við öðru metári og telur að þessari aukningu ljúki ekki fyrr en farið verði að sinna þessum málaflokki af myndaskap og að málsmeðferð verði flýtt. 

„Það getur verið dálítið aðlaðandi fyrir fólk sem að er ekki beinlínis hælisleitendur, sem ætla að vinna ólöglega eða koma í öðrum tilgangi, að koma til Íslands. Þetta getur verið fýsilegur kostur, að fá frítt fæði og húsnæði þegar málsmeðferðin er svona hrikalega löng.“ 

Kristín segir vísbendingar um að fólk komi hingað og stundi það sem kallist asylum shopping eða ferðamenn í hælisleit. 

„Þá er fólk bara að fara til útlanda og kynnast landi og þjóð og nýti sér þá þjónustu sem hælisleitendum stendur til boða.“

Hún segist ekki geta sagt til um hversu stór hópur þetta sé. Stofnunin sé undirmönnuð og því ekki mikið svigrúm til að stunda fræðimennsku og rannsóknir.