Sækja í náttúru og norræna samfélagsgerð

11.08.2017 - 10:04
Ómenguð náttúra og norræn samfélagsgerð er það sem helst dregur kínverska ferðamenn hingað. Þeir eru flestir fróðleiksfúst millistéttarfólk úr stórborgum, og hafa margir aldrei farið til útlanda áður.

Kínverskum ferðamönnum sem fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur fjölgað mjög á fjórum árum. Árið 2014 fóru rúmlega 9.500 Kínverjar um flugstöðina frá janúar og fram í júlí, en á sama tímabili ár voru þeir fleiri en 46.000. Það er nærri fimmföldun á fjórum árum.

Það er því rík ástæða til að spyrja nokkra ferðalanga frá þessu fjarlæga landi alræmdustu spurningar sem borin er upp við útlendinga á Íslandi:

How do you like Iceland?

„Það er svolítið kalt, en ferðin hefur verið stórkostleg. Við sáum ótrúlega fossa, þeir voru mjög fallegir. Alveg stórkostlegir,“ segir ungur maður á ferðalagi með fjölskyldu sinni.

Og það passar, Ferðamenn frá Kína eru á meðal þeirra ánægðustu með Íslandsdvölina, samkvæmt ferðamannapúlsi Gallup.

Fjölgun á öllum Norðurlöndunum

Kínverskum gestum hefur ekki bara fjölgað á Íslandi. Hörður Unnsteinsson, sem starfar í Ósló hjá asísku ferðaskrifstofunni Tumlare Corporation, sem selur Kínverjum ferðir til Íslands og Noregs, segir að kínverskum ferðamönnum hafi fjölgað mjög á hinum Norðurlöndunum. Hér telji þeir sig í skjóli fyrir hryðjuverkum, og í návígi við hreina náttúru.

„Þetta er fólk sem býr kannski í Beijing eða Sjanghaí, á meginlandi Kína þar sem er gríðarmikil mengun í borgum, og þá er það gríðarleg upplifun að koma hingað til skandinavíu og upplifa svona hreina og tæra náttúru eins og við getum boðið upp á,“ segir Hörður.
 
Steingrímur Þorbjarnarson sérhæfir sig í að selja Kínverjum Íslandsferðir, og hann tekur í sama streng. Náttúran sé þó ekki það eina sem þeir sæki í.

„Þeir hafa þá hugmynd um Norðurlöndin að þetta séu framúrstefnuleg samfélög, fólk sé vel stætt og geti verið þeim að einhverju leyti fyrirmynd um hvernig fólk sem er komið langt býr félagslega og efnahagslega. Þannig að þeir eru að leita að einhverju slíku, hvert þeir sjálfir eigi að stefna,“ segir Steingrímur.

Í fyrsta skipti til útlanda

Ferðamannahópurinn frá Kína hefur breyst, áður voru það auðmenn og embættismenn sem komu til Íslands, en í dag er það fyrst og fremst ungt millistéttarfólk. 

„Þetta er kannski fólk sem er að fara í fyrsta skipti út fyrir landsteinana og við höfum heyrt af því að það hefur verið gríðarlega mikil hrifning, sérstaklega á Íslandi. Og þetta virðist ekkert vera að staðna, miðað við bókanir fyrir 2018, þá virðist þetta vera rétt að byrja með kínverska markaðinn,“ segir Hörður.

Steingrímur tekur í sama streng. Hann segir að Ísland komi mörgum Kínverjum þægilega á óvart. Þeir tali um víðátturnar, hvað það sé gott að geta hreyft sig úti í náttúrunni, og það losni um ýmsar hömlur í samskiptum í ferðinni. Þeir komi endurnærðir heim. Þá séu þeir forvitnir um land og þjóð, og það komi þeim á óvart hversu nútímavæddar ýmsar atvinnugreinar séu, til dæmis landbúnaðurinn.

„Þeir eru mjög móttækilegir fyrir upplýsingum, um leið og þeim er bent á eitthvað á leiðinni eru þeir fljótir að taka við sér og vilja fá upplýsingar,“ segir Steingrímur.

Árans rokið

Þeir sem fréttastofa rakst á í dag virtust alsælir með ferðina.

„Ég er ánægð! Ísland er mjög gott, mjög fallegt,“ sagði ferðakona.

Og helsta umkvörtunarefnið er það sama og hjá landanum: „Það er helst að mér leiðist rokið, það blæs í sífellu!“ sagði ungi maðurinn.

Eldri ferðamaður tók í sama streng: „Fyrst er blár himinn og sólskin, og svo er allt í einu orðið skýjað! Og vindurinn blæs duglega.“