RSÍ vill fulltrúa launafólks í kjararáð

09.01.2016 - 23:37
Mynd með færslu
 Mynd: RSÍ
Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands, RSÍ, sendi frá sér ályktun í kvöld þar sem ákvörðun kjararáðs um launahækkanir til dómara upp á hundruð þúsunda króna er mótmælt.

Í ályktuninni segir að það gefi auga leið að vonlaust sé að byggja upp samfélag með jafnmikilli stéttarskiptingu og launahækkunin ber í för með sér. Hvetur miðstjórnin til þess að tekinn verði upp hátekjuskattur á það sem kallað er ofurlaun í ályktuninni. Tryggja þurfi jöfn skipti í samfélaginu, það sé forsenda sáttar til lengri tíma. Stjórnvöld eru hvött til þess að skipa fulltrúa launafólks af almennum vinnumarkaði í kjararáð.

Ályktunin í heild sinni er svohljóðandi:

Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands mótmælir harðlega ákvörðun kjararáðs þar sem laun dómara eru hækkuð um 300.000 – 560.000 kr á sama tíma og laun hins almenna launamanns hafa hækkað um um það bil 30.000 kr. Seðlabanki Íslands hefur ítrekað bent á að ígildi 10% af launahækkun dómaranna geti valdið efnahagslegum hamförum í samfélaginu hvað þá tíföld sú upphæð! Það gefur auga leið að vonlaust er að byggja upp samfélag með jafnmikilli stéttarskiptingu eins og raun ber vitni. Ákvarðanir um að deila meiri gæðum til þeirra sem meira hafa er óásættanlegt.

Hækkun launa í stjórnunarstöðum ýmissa fyrirtækja hér landi benda til þess að sama launastefna sé viðhöfð og áður en íslenskt efnahagskerfi hrundi. Við sáum þá að ofurlaunastefna fyrirtækjanna hafði ekkert með gæði fyrirtækjanna að gera og því er ekki ástæða til að ætla að svo sé nú.

Miðstjórn RSÍ tekur undir áskorun ASÍ til stjórnvalda um að tekið verði upp alvöru hátekjuskattur á ofurlaun. Það þarf að tryggja jöfn skipti í samfélaginu og ofurlaunastjórnendur sem eru aflögufærir eiga að leggja meira til samfélagsins. Jöfn skipti á þjóðarkökunni er forsenda sáttar í samfélaginu til lengri tíma! Miðstjórn RSÍ skorar á stjórnvöld að skipa fulltrúa launafólks af almennum vinnumarkaði í kjararáð.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV