Robert Downey kærður aftur fyrir kynferðisbrot

06.07.2017 - 19:03
Það sendir röng skilaboð að veita dæmdum kynferðisbrotamanni uppreist æru og lögmannsréttindi sín á ný. Þetta segir kona sem lagði í gær fram kæru gegn Robert Downey fyrir kynferðisbrot.

Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, var árið 2008 sakfelldur í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum á árunum 2005 og 2006.

Hann beitti blekkingum og nýtti sér yfirburði sína gagnvart stúlkunum, sem hann vissi að stóðu höllum fæti og áttu við erfiðleika að stríða. Brot hans voru ítrekuð og alvarleg og brotavilji hans einbeittur, að mati Hæstaréttar. Við ákvörðun refsingar var sérstaklega litið til þess að Róbert var starfandi lögmaður á þeim tíma sem brotin voru framin.

Þá hélt hann áfram brotum eftir að rannsókn lögreglu hófst. Við húsleit heima hjá honum fannst minnisbók með 335 kvenmannsnöfnum, ásamt símanúmerum og netföngum. Við nöfnin voru oft skrifaðar tölur sem lögreglan taldi tákna aldur stúlknanna.  

Leggur fram kæru eftir fregnir um uppreist æru

„Mig langaði alltaf til að koma fram, mig langaði alltaf til að skila skömminni en ég skammaðist mín ennþá of mikið og ég fékk mig ekki í það,“ segir Anna Katrín Snorradóttir sem í gær lagði fram kæru hjá lögreglu gegn Robert fyrir sams konar brot og hann var sakfelldur fyrir árið 2008. Hún segir að samskipti hennar og Roberts hafi staðið yfir í um þrjú ár, frá 2001 til 2004, þegar hún var fjórtán til sautján ára. „Ég hafði í rauninni ekkert bakland og þessi tími er allur í móðu, í rauninni öll þessi ár og tíminn á eftir er bara í móðu.“ 

Hún segist hafa orðið ofboðslega dofin, þunglynd og kvíðin. „Og mig langaði bara ekki til að lifa, skömmin var svo mikil.“ Robert fékk uppreist æru í fyrra og fékk leyfi til að endurheimta lögmannsréttindi sín nú í júní. Þær fréttir höfðu mikil áhrif á Önnu. „Ég fæ svakalegt kvíðakast, eitt stærsta kvíðakast sem ég hef fengið og það endar með því að ég hringi á sjúkrabíl, ég hélt ég væri að deyja. Vanlíðanin er svo mikil að ég er ekki að höndla neitt. Það er síðan upp frá því sem ég ákvað að koma fram.“  Hún segir þetta ótrúlega mikla vanvirðingu gagnvart þeim og gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. „Þetta eru svo röng skilaboð. Það er verið að segja að þetta sé í lagi. Þetta er ekki í lagi.“

Ekki náðist í Robert Downey við vinnslu fréttarinnar.