Rio Tinto með vinnustöðvun fyrir félagsdóm

21.02.2016 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Forráðamenn álversins í Straumsvík ætla að óska eftir því að félagsdómur skeri úr um hvort boðuð vinnustöðvun hafnarverkamanna, sem felur í sér stöðvun á útflutningi álversins, sé lögleg. Forseti Alþýðusambandsins segir að útflutningsban sé tiltölulega hefðbundin aðgerð í kjaradeilum.

Verkalýðsfélagið Hlíf hefur boðað til vinnustöðvunar í álverinu í Straumsvík á miðnætti á miðvikudag.

Hún felst í því að tólf hafnarverkamenn ætla ekki að skipa áli um borð í skip til útflutnings. Þeir ætla hins vegar að sinna öllum öðrum störfum og vinna áfram fullan vinnudag.

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi álversins, vildi ekki veita fréttastofu símaviðtal en segir að fyrirtækið ætli að láta reyna á lögmæti aðgerðanna, það er hvort starfsmenn geti valið sér verkefni. Ólafur Teitur segir að leitun sé að hliðstæðum aðgerðum í sögunni. Aðgerðirnar virðist vera til þess að fá forráðamenn álversins að samningaborðinu því ekki sé neitt fyrirliggjandi tilboð sem starfsmenn geti verið að hafna.

Fram kom hjá Guðmundi Ragnarssyni, formanni félags vélstjóra, í viðtali við Vísi að vinnustöðvunin hefði þau áhrif að útflutningur myndi stöðvast. Ólafur Teitur segir að það yrði grafalvarlegt fyrir álverið því ef það geti ekki flutt út fái það engar tekjur. Málið verði lagt í félagsdóm í vikunni og hugsanlega liggi niðurstaða fyrir áður en til vinnustöðvunar kemur. 

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandið, segir að sambandið styðji aðgerðir Hlífar.  „Ég held að í ljós þeirrar stöðu sem komin er upp í þessari deilu þá er bara mjög eðlilegt framhald hjá starfsmönnum að setja þrýsting á fyrirtækið. Mér fannst nú viðbrögð upplýsingafulltrúans á föstudaginn varðandi stöðuna að það sé ekkert annað að gera en að setja mikinn þrýsting á vegna þess að það er verið að beita starfsmenn lítt duldum þvingunum með því að meina þeim um eðlilegar launahækkanir á vinnumarkaði.

Gylfi segir það í sjálfu sér ekkert koma sér á óvart að atvinnurekendur láti reyna að verkfallsboðunina.„ En útflutningsbann er svona tiltölulega hefðbundin aðferð hjá okkur í kjaradeilu og hefur oft verið beitt áður.

 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV