Ríkið taki ekki afsláttinn til sín

05.01.2016 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ríkið má ekki taka til sín þann afslátt sem lyfsalar hyggjast veita sjúklingum segir Umboðsmaður Alþingis. Lyfsali kvartaði undan framkvæmd á lögum um greiðsluþátttöku ríkisins í lyfjakostnaði.

 

Nýtt kerfi um greiðsluþátttöku ríkisins í lyfjakostnaði tók gildi árið 2013 og var ætlað að draga úr kostnaði þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda en færa hann á þá sem sjaldnar þarfnast lyfja. Fljótlega kom í ljós að ríkið hugðist taka til sín stærstan hluta af þeim afslætti sem apótek buðu sjúklingum af hlutdeild þeirra í lyfjaverði. Þetta var umdeilt og einn lyfsali kvartaði undan þessu við Umboðsmann Alþingis fyrir hönd viðskiptavinar síns.

Reglugerðin sem ráðherra hafði sett og tryggði ríkinu hluta afsláttarkjaranna var felld niður eftir að kvörtunin barst en lyfsalinn taldi framkvæmdina ekki hafa breyst.

Umboðsmaður kvað upp álit sitt fyrir skemmstu og birti það í dag. Hann sagði að lyfjalög heimiluðu ekki að Sjúkratryggingar Íslands breyttu því greiðsluþátttökuverði sem lyfjagreiðslunefnd hefði ákveðið. Þannig ætti afsláttur sem lyfsali veitti sjúkratryggðum einstaklingi ekki að breyta greiðsluþátttöku hins opinbera. Væri sú leið farin yrði greiðsluþátttaka ríkisins lægri en ella. Umboðsmaður skorar því á heilbrigðisráðherra að breyta framkvæmdinni þannig að hún samrýmist gildandi lögum eða fá Alþingi til að breyta lögum vilji hann halda sömu framkvæmd.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV