Ríkið eignast hlut í félagi Frosta

21.03.2016 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Ríkissjóður hefur eignast tæplega 4 prósenta hlut í flugleitarvefnum Dohop, sem er meðal annars í eigu Frosta Sigurjónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og formanns efnahags-og viðskiptanefndar. Frosti er jafnframt stjórnarformaður félagsins. Frosti segist ekki hafa vitað af því að hlutur í félaginu yrði meðal þeirra eigna sem ríkið fengi í sinn hlut gegnum stöðugleikaframlög föllnu bankanna.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um þær eignir sem ríkissjóður hefur eignast með stöðugleikaframlögum þrotabúanna. Fyrirspurnin var send á fjármála-og efnahagsráðuneytið eftir að ríkissjóður eignaðist allt hlutafé í einu stærsta apóteki landsins - Lyfju.

Ekki kemur fram í svarinu hversu stór hlutur íslenska ríkisins er. Samkvæmt ársreikningi félagsins átti þrotabú Landsbankans tæplega 4 prósenta hlut í félaginu.

Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, staðfestir í samtali við fréttastofu að ríkið hafi eignast þennan hlut í félaginu - þeir hafi fengið bréf þess efnis í byrjun febrúar.  „Þessi hlutur kemur í gegnum uppgjör slitastjórnarinnar við hluthafa í félaginu,“ segir Davíð.  Áætlað verðmat Dohop er um 850 milljónir þannig að hlutur ríkisins væri því tæplega 40 milljónir.

Frosti á 15,4 prósenta hlut í fyrirtækinu samkvæmt ársreikningnum. Þar segir einnig að árið 2014 hafi félagið tapað 22,5 milljónum króna - eigið fé félagsins nam 77,5 milljónum króna.

Frosti segist ekki hafa vitað af því að ríkið myndi eignast hlut í Dohop. „Ég hefði kannski átt að vita það,“ segir Frosti en bendir þó að hver sem er geti keypt og selt hlut í félaginu og það sé ekki eitthvað sem hann skipti sér af. 

Frosti er einnig formaður efnahags-og viðskiptanefndar sem fékk til umfjöllunar frumvarp fjármálaráðherra um hvernig ætti að standa að sölu þessara eigna. Frosti segir að nefndarmenn hafi aldrei fengið lista yfir þær eignir sem ríkið myndi fá. 

Í svari fjármála- og efnhagsráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að unnið sé að stofnun félags sem muni annast umsýslu, fullnustu og sölu framsalseigna. Stjórn þess mun í framhaldinu fara með eigandavald sem eru hluti af framsalseignum „og taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka á hluthafafundum einstakra félaga þ.m.t að taka ákvarðanir um kjör stjórna.“

Í nefndaráliti meirihluta efnahags-og viðskiptanefndar við frumvarpið kom meðal annars fram að miklu skipti að „allt ferli við sölu og ráðstöfun félagsins á eignum sé skýrt og ljóst og að ávallt liggi fyrir á hverju einstakar ákvarðanir séu byggðar.“ 

Í öðru nefndaráliti með breytingartillögu segir enn fremur að fjármálaráðherra muni ársfjórðungslega gera nefndinni grein fyrir framvindu við úrvinnslu eignanna og áætluðum lokum verkefnsins. Ráðgert er að störfum félagsins verði lokið og félaginu slitið fyrir 31. desember 2018.

LEIÐRÉTT: Frosti Sigurjónsson á 15,4 prósenta hlut í Dohop og hlutur ríkisins er tæplega 4 prósent eða 3,6 prósent.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV