Reyna að ljúka rannsókn áður en farbann er úti

18.01.2016 - 18:36
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Lögreglan á Suðurlandi leggur alla áherslu á að ljúka rannsókn banaslyss í Öræfum áður en farbann erlends ökumanns rennur út 1. mars. Þetta segir Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa valdið mannsbana af gáleysi.

Lögreglan á Suðurlandi bíður nú niðurstaðna úr þremur þáttum rannsóknarinnar. Sérfræðingar vinna að bíltæknirannsókn, hraðaútreikningum og efnarannsóknum. Ökumaðurinn er undir sterkum grun um að hafa valdið mannsbana af gáleysi í árekstri tveggja bíla á öðrum degi jóla.

Japanskur ökumaður hins bílsins lést og kona hans og tvö börn slösuðust. Vitni bera að maðurinn hafi ekið á mikilli ferð inn á einbreiða brú þar sem fyrir var annar bíll. Lögreglan á Suðurlandi hefur miklar áhyggjur af umferðarhraða á leiðinni á milli Víkur og Hafnar í Hornafirði þar sem mörg umferðarslys urðu á nýliðnu ári.

Flestir átján ökumanna sem teknir voru fyrir of hraðan akstur á Suðurlandi í fyrri viku, voru á þessari leið.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV