Réttur Blævar ríkari en samfélagshagsmunir

31.01.2013 - 11:57
Mynd með færslu
Héraðsdómur Reykjavíkur telur að ríkinu hafi ekki tekist að sýna fram á að Blær geti ekki verið kvenmannsnafn. Blær Bjarkardóttir Rúnarsdóttir vann í morgun mál sitt gegn ríkinu um að fá að bera nafn sitt og var úrskurður mannanafnanefndar felldur úr gildi.

Dómurinn telur að vitnisburður og gögn í málinu bendi til þess að nafnið geti verið bæði kvenmannsnafn og karlmannsnafn. Því sé úrskurður mannafnanefndar ólögmætur. Réttur Blævar til að bera nafn sitt sé ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að hafna því.

Auk þess hafi ríkið ekki fært haldbær rök fyrir því að réttindi annarra verði fyrir borð borin ef stúlkan fær að heita Blær. Því sé ekki hægt að réttlæta það að skerða rétt Blævar til að bera nafnið. Vísað er til réttar fólks til nafns sem sé tryggður í stjórnarskránni og með mannréttindasáttmála Evrópu. Lögmaður ríkisins hélt því fram, með vísan til stjórnarskrárinnar, að réttlætanlegt væri að skerða réttinn vegna þess að réttindin vörðuðu fleiri en stúlkuna og vernd íslenskrar tungu.

Ríkið hefur ekki tekið ákvörðun um hvort málinu verður áfrýjað. Ríkislögmaður mun leita eftir áliti innanríkisráðuneytisins áður en það verður ákveðið.

Erlendir miðlar hafa fylgst með máli Blævar. Hér má sjá umfjöllun BBC um niðurstöðu réttarins í dag.