Rekinn fyrir áreitni – fær milljarða greiðslu

21.04.2017 - 15:38
Bill O´Reilly.
 Mynd: EPA
Sjónvarpsmaðurinn Bill O´Reilly, sem nýlega var sagt upp störfum hjá sjónvarpsstöðinni Fox News, gæti fengið allt að 25 milljónir bandaríkjadala í starfslokagreiðslu. Það er jafnvirði um 2.750 milljóna íslenskra króna. O´Reilly var sagt upp í kjölfar þess að fjöldi kvenna sakaði hann um kynferðislega áreitni. Upphæðin jafngildir árslaunum O´Reillys.

Í byrjun apríl bárust fréttir af því að stórir auglýsendur á borð við BMW, Mercedes-Benz og Hyundai væru hættir að kaupa auglýsingar í tengslum við þátt O'Reillys. Á miðvikudag var svo tilkynnt að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Fox.

O´Reilly er einn þekktasti sjónvarpsmaður Bandaríkjanna. Hátt í fjórar milljónir horfðu að jafnaði á þátt hans, The O´Reilly Factor. Á tæpum tveimur árum, frá janúar 2015 til september 2016, skilaði þátturinn 297 milljónum bandaríkjadala í auglýsingatekjur. Það er jafnvirði um 34 milljarða króna.

Lögfræðingur tveggja kvenna sem saka O´Reilly um kynferðislega áreitni, harmar þessa háu starfsloksgreiðslu. Í samtali við New York Times segir hann að fyrir flesta sé 25 milljóna dala greiðsla alger lottóvinningur.

Að sögn New York Times hefur sjónvarpsstöðin Fox News nú greitt starfsmönnum 85 milljónir dala í tengslum við ásakanir um kynferðisofbeldi. Bróðurparturinn, 65 milljónir dala, hefur runnið til karlmanna sem hafa verið látnir hætta störfum eftir ásakanir um kynferðislega áreitni. Meðal þeirra eru Bill O´Reilly og Roger Ailes, stofnandi sjónvarpsstöðvarinnar og fyrrverandi stjórnarformaður hennar, sem lét af störfum á miðju síðasta ári.