Reglurnar sem vísað var til finnast ekki

19.03.2016 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd: Forsætisráðuneytið
Engar EES-reglur eru til um sérstaklega strangt eftirlit með skattskilum þeirra sem tengjast stjórnmálamönnum.

Eiginkona forsætisráðherra segir í Facebook-færslu, sem hún birti í vikunni, að hún sé undir slíku eftirliti. Í færslunni greinir hún frá því að hún geymi fjölskylduarf sinn í erlendu félagi, Wintris Inc. Daginn eftir var upplýst í fjölmiðlum að það er skráð á Bresku-Jómfrúreyjum, og lýst um hálfs milljarðs króna kröfum í föllnu bankana.

Fréttastofa leitaði til sérfræðinga innan stjórnsýslunnar, sem kannast ekki við slíkar reglur um sérstakt eftirlit með skattskilum fólks sem tengist stjórnmálamönnum.  Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í skattarétti, segir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið taki hvorki til skattlagningar né eftirlits með skattskilum einstaklinga. 

Jóhannes Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir að þetta séu líklega einföld mistök, þarna hafi hún líklega  átt við reglur um peningaþvætti sem taka til upplýsingagjafar þegar fólk stofnar bankareikninga. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er einmitt haft sérstakt eftirlit með þeim sem tengjast stjórnmálamönnum í slíkum tilfellum. Peningaþvættisreglurnar taki þó á engan hátt til skattskila.