Refsivert að ræða mál manna eftir uppreist æru

03.09.2017 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Lagagrein sem gerir umræðu um brot manna sem fengið hafa uppreist æru refsiverð, gengur lengra í að hamla málfrelsi en önnur lagaákvæði um æruvernd. Þetta segir lögfræðingur sem telur óvíst að lagagreinin standist stjórnarskrá.

Mikið hefur verið rætt um mál Roberts Downeys og Hjalta Sigurjóns Haukssonar sem fengu uppreist æru eftir að hafa afplánað refsidóma fyrir kynferðisbrot gegn ungum stúlkum. Í lögum er þó ákvæði sem segir að ekki megi bera á menn sakir hafi þeir hlotið dóm fyrir þær og fengið uppreist æru.

Sannleikurinn oftast refsilaus - en ekki alltaf

Skúli Á. Sigurðsson lögfræðingur rannsakaði vítaleysi sannra ærumeiðinga. „Almennt séð þá leiða sannindi ummæla til þess að ummæli sem ella væru refsiverð sem ærumeiðingar eru refsilaus. Það er að segja sannleikurinn gerir ummæli refsilaus. Ef þú berð manni á brýn brot sem hann hefur sannarlega framið þá felur það ekki í sér ærumeiðingu, í það minnsta ekki refsiverða ærumeiðingu.“

Annað eigi við þegar rætt er um þá sem hlotið hafa uppreist æru. Um hana er fjallað í annarri málsgrein 238. greinar almennra hegningarlaga. „Það er gert óheimilt og í raun refsivert eins og aðrar ærumeiðingar að bera mönnum á brýn afbrot sem þeir frömdu sannanlega og hafa verið dæmdir fyrir.“ Þetta feli í sér að sönn ummæli geti orðið refsiverð, sem sé undantekning frá meginreglu. Skúli segir að þarna vegist á sjónarmið um tjáningarfrelsi og æruvernd.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Mikið hefur verið rætt um mál Roberts Downeys í sumar. Hann endurheimti lögmannsréttindi eftir að hafa fengið uppreist æru. Seinna kom í ljós að Hjalti Sigurjón Hauksson, til vinstri, hefði líka fengið uppreist æru.

Ekki spurt um tilefni

Skúli segir nokkuð víst að lagagreinin eigi við umræðu sumarsins um uppreist æru. Lagagreinin sé einstrengingsleg og engir fyrirvarar gerðir um tjáninguna eins og í öðrum lagagreinum. Þegar kemur að brigslyrðum eru þau til dæmis aðeins refsiverð ef þau eru sett fram að tilefnislausu.

Skúli segir að miðað við framsetningu greinarinnar í almennum hegningarlögum eigi hún við í öllu samhengi, hvort sem vísað er til fjölmiðlaumfjöllunar, fræðilegrar umfjöllunar eða annarrar umræðu um mál. „Það er talað um að ærumeiðing geti verið framin með því einu að þú hefur í frammi meiðyrði í samtali við annan mann. Þannig að þetta gæti átt við í öllum umfjöllun.“

Mynd með færslu
Af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær.  Mynd: Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur fjallað um uppreist æru í sumar. Nefndarmenn hafa lýst ólíkum viðhorfum um hvort aðeins eigi að ræða lögin sjálf og framkvæmd þeirra eða einstök dæmi þar um.

Skilyrði fyrir hömlum á tjáningarfrelsi

Skúli telur verulegan vafa á því hvort lagagreinin standist stjórnarskrá. Í stjórnarskrá eru sett skilyrði fyrir því hvernig setja megi tjáningarfrelsi hömlur. Setja þurfi lög um slíkt og fyrir þeim lögum þurfi að vera markmið.

„Þarna vaknar þessi spurning og verður mjög áleitin, að því leyti: Er það nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi, samræmist það lýðræðishefðum að hamla tjáningu að þessu leyti? Þarna er um að ræða umræðu sem getur vel átt erindi við almenning. Það gerir fjölmiðlum mjög erfitt fyrir og fólki í opinberri umræðu og allri umræðu ef ekki má tjá sig um þessi mál. Það er mjög hamlandi. Í því máli sem hefur verið í umræðunni undanfarið er að ræða mjög stóra siðferðilega spurningu og einnig spurning um túlkun laga um uppreist æru. Er það nauðsynlegt og samræmist það lýðræðishefðum að hamla tjáningarfrelsi á þennan hátt?“

Vafi á að greinin standist lög

Skúli nefnir að ekki hafi reynt á þessa málsgrein laganna fyrir dómi en að bendir á að Hæstiréttur hafi í dómum sínum sagt að mjög góðar ástæður þurfi að vera fyrir hömlum af þessu tagi. Sama sé að segja um Mannréttindadómstól Evrópu, af dómum hans megi ráða að hömlur þurfi að vera til þess fallnar að hamla því að út brjótist óöld eða ofbeldi, eða til þess að hamla hatursorðræðu. Skúli vísar sérstaklega til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 1992 í máli stjórnmálamanns sem hafði rifjað upp í kosningabaráttu að andstæðingur hans hefði tæpum 20 árum áður valdið umferðarslysi sem kostaði einn lífið og slysum á öðrum. Dómstóll í Austurríki taldi þetta ærumeiðingar en Mannréttindadómstóll Evrópu taldi að slíkar upplýsingar gætu átt erindi við almenning sem ætti að kjósa fólk í valdastöður.

„Það er mjög erfitt að segja að það eigi við. Það er alls ekki víst að þessi lagagrein, ef hún kæmi til kasta dómstóla sem hún hefur aldrei gert, myndi teljast standast stjórnarskrá. Það er í rauninni þessi spurning hvort þessar hömlur séu nauðsynlegar og samræmist lýðræðishefðum. Ég myndi telja í rauninni að svo sé ekki.“