Rauði bíllinn hverfur í meira en klukkutíma

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ?
Rauði bíllinn, sem kemur fram á eftirlitsmyndavélum Hafnarfjarðarhafnar á laugardagsmorgni, sést fara út af hafnarsvæðinu að minnsta kosti einu sinni og hann snýr ekki aftur á svæðið fyrr en að minnsta kosti klukkutíma seinna þennan sama dag. Rauði bíllinn og skór sem fundust við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði hafa gegnt lykilhlutverki í rannsókn lögreglu á hvarfi Birnu Brjánsdóttur.

Strax og rannsókn lögreglu hófst á hvarfi Birnu Brjánsdóttur hefur lögregla reynt að ná tali af ökumanni rauðs Kia Rio sem sést á eftirlitsmyndavélum keyra fram hjá Birnu við Laugaveg 31 - Biskupsstofu. 

Rannsóknin á máli Birnu breyttist talsvert eftir að skór, sem lögreglan telur að séu í eigu Birnu, fundust við athafnasvæði Atlantsolíu við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði.

Lögreglan hóf strax leit að eftirlitsmyndavélum og við skoðun á slíkum myndavélum Hafnarfjarðarhafnar sést rauður Kia Rio koma inn á hafnarsvæðið um sexleytið á laugardagsmorgun eða nokkrum mínútum eftir að það slökknar á farsíma Birnu við Flatarhraun. Og fljótlega fóru böndin að berast að grænlenska togaranum Polar Nanoq en skipverjar höfðu bíl þessarar tegundar á leigu. 

Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta að bíllinn á hafnarsvæðinu sé sá sami og sást á Laugaveginum, meðal annars vegna þess að ekki hefur tekist að greina skráningarnúmer bílsins á Laugaveginum. Lögreglan hefur heldur ekki viljað staðfesta að þetta sé sami bíll og lagt var hald á í Kópavoginum á þriðjudag.

RÚV greindi frá því í gær að myndefni úr öryggismyndavélum Hafnarfjarðarhafnar sýndi tvo menn í rauða bílnum snemma á laugardagsmorgun. Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að bíllinn sjáist keyra út af hafnarsvæðinu nokkru seinna og snúi ekki aftur fyrr en að minnsta kosti klukkutíma seinna en hugsanlega líður lengri tími.

Einar Guðbergur Jónsson, lögreglufulltrúi, staðfestir að bíllinn hverfi í að minnsta klukkustund þennan dag en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Eftirlitsmyndavélar eru við báða enda hafnarsvæðisins þar sem Polar Nanoq lá og því er talið útilokað að hann hafi getað komist inn á hafnarsvæðið án þess að sjást á eftirlitsmyndavélum hafnarinnar.

Tveir skipverjar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 2. febrúar í hádeginu í dag. Einar Guðbergur sagði í hádegisfréttum RÚV að lögreglan hefði rökstuddan grun um að mennirnir tveir hefðu komið að hvarfi Birnu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað verður gert með þriðja skipverjann sem handtekinn var síðdegis í gær. 
 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV