RARIK á Krókinn og Gæslan í Skagafjörð

13.12.2014 - 18:06
Mynd með færslu
Rarik á Sauðárkrók, Gagnaveita á Blönduós og rekstur skipa Landhelgisgæslunnar í Skagafjörð. Þetta eru meðal tillagna sem landshlutanefnd ríkisstjórnarinnar hefur lagt fram. Kostnaður við aðgerðirnar er talinn nema hundruðum milljóna króna.

Forsætisráðherra boðaði ríkisstjórnina á fund með afar skömmum fyrirvara seinnipartinn í gær. Á fundinum, sem stóð í tæpa tvo klukkutíma, voru lagðar fram tillögur starfshóps, Norðvesturnefndarinnar svokallaðrar, um eflingu norðvesturhluta landsins. Enginn ráðherra vildi veita fréttastofu viðtal eða greina frá efni fundarins. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í gær um dagskrá fundarins var ekki sagt frá því að ríkisstjórnin ræddi skýrsluna, en eftir því sem næst verður komist féllu tillögurnar í grýttan jarðveg hjá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Enginn hefur viljað tjá sig um málið þar sem tillögurnar hafa ekki verið gerðar opinberar.

Ríkisstjórnin samþykkti í maí að skipa sérstaka landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra sem á að koma með tillögur um hvernig efla megi byggðaþróun og fjárfestingar og fjölga atvinnutækifærum á svæðinu. Formaður nefndarinnar er Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins í Skagafirði. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og aðstoðarmaður forsætisráðherra, er einnig starfsmaður nefndarinnar, sem starfar í umboði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru tillögur nefndarinnar nokkuð róttækar og fela meðal annars í sér flutning skipareksturs Landhelgisgæslunnar í Skagafjörð, flutning Rarik á Sauðárkrók, eflingu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd, eflingu menntastofnana á svæðinu og byggingu gagnavers á Blönduósi. 

Aðgerðirnar eru taldar kosta mörg hundruð milljónir og gert er ráð fyrir öðru eins við rekstur eftir breytingarnar. Tillögunum er skipt í þrjá flokka, meiriháttar atvinnuuppbyggingu, flutning starfa á svæðinu og svo ný opinber störf.

Á sama tíma og Norðvesturnefnd ríkisstjórnarinnar hefur starfað er hin svonefnda sóknaráætlun landshluta í fullum gangi, sem snýr að eflingu allra landshluta fyrir árið 2020.

sunnav@ruv.is