Rannsaka hvort hnífur tengist O.J. Simpson

04.03.2016 - 18:07
FILE - In this May 14, 2013, file photo, O.J. Simpson sits during a break on the second day of an evidentiary hearing in Clark County District Court in Las Vegas. Los Angeles police are investigating a knife purportedly found some time ago at the former
 Mynd: AP  -  POOL
Tæknimenn á vegum lögreglunnar í Los Angeles rannsaka hníf sem fannst í húsi sem var áður heimili O.J. Simpsons, fyrrverandi ruðningskappa og kvikmyndaleikara. Verið er að kanna hvort hnífurinn tengist morðunum á Nicole Brown Simpson, fyrrverandi eiginkonu hans, og Ron Goldman, vinar hennar. Þau voru myrt í júní 1994. O.J. Simpson var sýknaður af ákæru um að hafa framið ódæðin og ekki er hægt að sækja hann aftur til saka í málinu.

Byggingaverktaki fann hnífinn á lóðinni við húsið og afhenti lögreglumanni hann. Sá sagði ekki frá því þar sem hann taldi málinu lokið. Þegar lögregluyfirvöld fengu nýverið að vita af hnífnum var hann þegar sendur í rannsókn.

Simpson afplánar þungan fangelsisdóm fyrir rán og mannrán í Las Vegas sem framin voru 2007.

 

Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV