Rangt að sá tortryggni meðal almennings

12.05.2014 - 12:44
A forensic expert places on a support DNA samples to analyse them during a mock exercise to present the work of the Police Technique et Scientifique (PTS, technical and scientific police) unit, on January 25, 2013 at Poissy, west of Paris.  AFP PHOTO
Hópur lækna og háskólamanna styður lífsýnasöfnun Íslenskrar erfðagreiningar og Landsbjargar. Yfirlæknir á Landspítala gagnrýnir siðfræðinga sem gert hafa athugasemdir við söfnina. Læknirinn segir að ekki sé rétt að trufla mikilvægar rannsóknir.

Stjórnarmenn í Siðfræðistofnun og háskólamenn sendu frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem þeir gagnrýndu lífsýnasöfnun Íslenskrar erfðagreiningar og Landsbjargar. Fólk væri beðið að veita samþykki fyrir afar umfangsmiklum rannsóknum sem ómögulegt væri að sjá fyrir nú. Söfnunin hafi skollið á óvænt og án umræðu í samfélaginu.

Nú hafa 36 háskólamenn og læknar tekið sig saman og send frá sér stuðningsyfirlýsingu við lífsýnasöfnunina. Guðmundur Þorgeirsson, yfirlæknir á Landspítalanum og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, er einn þeirra. „Við teljum að athugasemdirnar sem komu fram frá siðfræðingunum og fleirum hafi ekki verið réttmætar og ekki sanngjarnar. Í grundvallaratriðum er engin breyting á þessari rannsókn og gert hefur verið árum saman til þess að fá þátttöku almenings inn í þessa rannsókn.“

Almenningi sé vel treystandi til þess ákveða hvort hann vilji vera með í rannsókninni. Rannsóknin byggist á upplýstu samþykki, segir Guðmundur. Með henni sé verið að kalla til viðmiðunarhóp fyrir rannsóknir. „Að sjálfsögðu liggur það í hlutarins eðli að slíkt þýði gæti komið að ýmsum rannsóknum en fólk hefur tækifæri til að takmarka þátttökuna.“

Hópurinn líti svo á að rannsóknirnar séu afar mikilvægar. „Við teljum að það sé röng hugsun að trufla eða tefja eða sá einhvers konar óþarfa tortryggni meðal almennings um rannsóknir sem eru mikilvægar, hafa skilað miklum árangri og hafa vakið mikla almenna viðurkenningu í vísindaheiminum um allan heim. Þannig að þetta eru bara mikilvægar rannsóknir sem er mikilvægt að halda áfram.“