Rafrettur, netraunir og hinsegin flóttamenn

17.02.2016 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: flickr
Notkun á rafrettum hefur aukist talsvert hér á landi og sitt sýnist hverjum um það. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað við útbreiðslu rafretta og hvetur ríki heims til að herða reglur um notkun þeirra. En eru rafrettur hættulegar? Hrafnhildur Halldórsdóttir hitti Guðmund Karl Snæbjörnsson lækni.

Í Kastljósi gærkvöldsins var veitt ákveðin innsýn í heim lífstílsbloggara og Snapchat notenda en mörg þúsund manns nota forritið sem og aðra samfélagsmiðla á dag og fyrirtæki eyða auknu markaðsfé í lífstílsbloggara. En hvað þýðir þetta allt? Hvaða áhrif hefur þetta á ungu kynslóðina, sem er sú fyrsta til að alast upp með og á samfélagsmiðlum? Hvernig verður þróunin og hvað er það besta við það sem er að gerast í dag? Margrét Birna Þórarinsdóttir sálfræðingur ræddi þessi mál.

Samtökin '78 fordæma í yfirlýsingu á vef sínum harðlega meðferð íslenskra yfirvalda á hinsegin flóttafólki,og vísa þar til synjunar á hælisumsóknum tveggja manna og yfirvofandi brottvísun þeirra úr landi.  Hilmar Hildarson Magnússon formaður samtakanna '78 var á línunni.

Hvaða áhrif hafa hryðjuverk í borgum á borgirnar sjálfar og upplifun okkar á þeim? Stórborgir sem áfall eða trauma er nokkuð sem Sigrún Alba Sigurðardóttir fagstjóri við LHÍ hefur rannsakað. 

Formaður Þroskahjálpar segir að gríðarlegt álag sé á aðstandendum fatlaðs fólks sem oft á tíðum sinni þörfum fullorðinna sem ættu að fá slíka aðstoð frá hinu opinbera. Kastljós mun fjalla um þessi mál í kvöld og annað kvöld. Baldvin Þór Bergsson fór yfir málið.

Við heyrðum líka í Arnari Eggert Thoroddsen tónlistarvita  - hann fór meðal annars yfir Grammy verðlaunin, Paul McCartney sem var ekki hleypt í partý, Eagles of Death Metal, hárlubba úr John Lennon og fleira.

Mynd með færslu
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi