Rafmagn fór af álverum

01.09.2010 - 21:18
Mynd með færslu
Umtalsverðar rafmagnstruflanir urðu á landinu í kvöld og varð stór hluti Austurlands án rafmagns um stund. Rafmagn er nú víðast komið á að nýju. Ekki er vitað hvað olli þessum truflunum en samkvæmt upplýsingum frá Landsneti fór straumur af álveri Norðuráls á Grundartanga og að hluta af álveri Ísal í Straumsvík. Hjá Fjarðaáli fengust þær upplýsingar að lækka þurfti strauminn á álverinu vegna truflananna. Rafmagni hefur enn ekki verið hleypt á álverið á Grundartanga vegna þess að þar er reykur í rofasal. Slökkvilið Akraness hefur verið kallað á staðinn en ekki fengust upplýsingar um það fyrir fréttir hvort eldur væri í húsinu.

Ekki er vitað hvað olli biluninni en unnið er að viðgerð, samkvæmt upplýsingum frá Landsneti. Rafmagn fór af Héraði, Vopnafirði, Seyðisfirði og Höfn í Hornafirði um tíma en rafmagn er aftur komið á. 

Þrjár vélar í Hellisheiðarvirkjun stöðvuðust við höggið sem kom á dreifikerfi Landsnets, en þær framleiða rafmagn.  Ekki varð þó rafmagnslaust á höfuðborgarsvæðinu, þó íbúar þar ættu að hafa orðið varir við flökt í rafmagninu.

Að sögn Helga Péturssonar, hjá Orkuveitu Reykjavíkur, varð höggið á dreifikerfinu til þess að heitavatnsdælur duttu út en voru gangsettar fljótlega aftur.