Ræða hvort hægt sé að bjarga Pressunni

18.05.2017 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Eyjan  -  Stöð 2
Forsvarsmenn fjárfestingarfélagsins Dalsins, sem þegar hefur lagt inn hlutafé í fjölmiðlafyrirtækið Pressuna, munu ræða við stjórnendur félagsins um hvort hægt sé að bjarga rekstri þessi. Þegar hefur verið gefið út að félagið muni ekki taka þátt í frekari hlutafjáraukningu fyrirtækisins.

Tilkynnt var fyrir rúmum mánuði um 300 milljóna króna hlutafjáraukningu í Pressunni, sem meðal annars á fjölmiðlana DV, Pressuna, Eyjuna og ÍNN. Af þeim lagði fjárfestingarfélagið Dalurinn til 155 milljónir. Félagið er meðal annars í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og Halldórs Kristmannssonar, sem allir eru tengdir lyfjafyrirtækinu Alvogen. Samhliða því átti Björn Ingi Hrafnsson stjórnarformaður og útgefandi að láta af stöfum.

Nú er hlutafjáraukningin í uppnámi. Forsvarsmenn Dalsins hafa staðfest við fréttastofu RÚV að ekki verði af fyrirhugaðri þátttöku þeirra í hlutafjárhækkun Pressunar. „Við höfum ákveðið að taka ekki þátt í frekari hlutafjárhækkun Pressunar og að óbreyttu munum við ekki leggja frekari fjármuni til félagsins,“ segir Halldór Kristmannsson forsvarsmaður Dalsins.

Aðspurður vildi hann ekki tjá sig um einstakar ástæður þess að viðskiptin hafi ekki gengið eftir en bendir á að við nánari skoðun telji menn að ýmsar forsendur hafi brostið og að fyrirhuguð viðbótarhlutfjáraukning myndi einfaldlega ekki duga til að koma fjárhag félagsins í ásættanlega form. Dalurinn mun, sem þegar stór hluthafi í gegnum þau fjárframlög sem þegar höfðu verið lögð fram vera í samráði við stjórn félagins um framhaldið. 

Halldór segir að Dalurinn hafi lagt umtalsverða fjármuni inn í félagið síðustu vikurnar sem hafi nýst til að greiða niður skuldir vegna opinberra gjalda. Fjárhagsleg staða Pressunar sé erfið og meðal annars verði rætt hvort hægt verði að bjarga rekstri félagsins.

Kaupum á Birtíngi rift vegna tafa við hlutafjáraukningu

Björn Ingi Hrafnsson stjórnarformaður og eigandi Pressunnar segir að verið sé að ganga frá skráningu fleiri hluthafa, þar með talið 50 milljóna hlutafé hans sjálfs og Arnars Ægissonar framkvæmdastjóra félagsins. „Hins vegar er þessi tilgreinda hlutafjaraukning komin á ís. Dalurinn hefur tjáð okkur að fleiri verði að koma að málum og því er boltinn aftur kominn til okkar Arnars og við í fyrri störfum sem stjórnarformaður og útgefandi og framkvæmdastjóri.“

Björn staðfesti jafnframt að kaupum Pressunnar á Birtíngi, sem gefur meðal annars út Vikuna, Hús og híbýli og Nýtt líf, hafi verið rift vegna tafa við endurskipulagningu og hlutafjáraukningu Pressunnar. „Riftunarbréf er varðveitt hjá óháðum lögmanni og eftir er að ræða hvernig kaupin geta gengið til baka þvi umtalsverðar greiðslur höfðu farið milli felaganna, m.a. helmingur kaupverðs og rekstrarfé í Birtíngi. Auk þess hefur starfsfólk Pressunnar unnið fyrir Birtíng undanfarnar vikur. Verkefni okkar næstu daga og vikur er að gefa áfram út öfluga fjölmiðla og tryggja rekstur þeirra með aðkomu fleiri aðila. Ábyrgð okkar er mikil enda stór vinnustaður. Við höfum hagrætt umtalsvert í rekstri og vonumst til að vera komin á lygnari sjó innan nokkurra vikna,“ segir Björn Ingi.

Hann segir jafnframt að við það að kaupin á Birtíngi gangi til baka lækki heildarskuldir Pressusamstæðunnar um 200 milljónir.

Þegar Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Pressunnar á Birtíngi kom fram að fyrri eigendur hefði ekki fjármagn til að halda útgáfunni áfram óbreyttri og kaupin myndu því tryggja fjölbreytni útgáfunnar. Karl Steinar Óskarsson framkvæmdastjóri Birtings segir riftun á kaupunum ekki hafa áhrif á rekstur fyrirtækisins, þar sem þegar hefði verið farið í umfangsmikla endurskipulagningu á fyrirtækinu.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV