Ráðist gegn kennitöluflakki

22.02.2016 - 22:17
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Tekið er á kennitöluflakki stjórnenda fyrirtækja í frumvarpi sem lagt verður fyrir Alþingi á morgun. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins segir það gott fyrsta skref til að taka á þessu gamla vandamáli og boðar frekari aðgerðir.

Samkvæmt frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög þannig að stjórnendur fyrirtækja megi ekki hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri gjaldþrota fyrirtæki á þriggja ára tímabili. Í greinargerð með frumvarpinu segir að kennitöluflakk sé mikil meinsemd sem lengi hafi viðgengist og margir hafi skaðast af. Bent er á að samkvæmt athugun starfshóps á vegum ríkisskattstjóra nemi skattaundanskot um 80 milljörðum króna á ári.

„ Þetta er gott fyrsta skref, en vandamálið er mjög  stórt og hefur þróast og viðgengist hér í okkar þjóðfélagi í áratugi. Ég held að þessi aðgerð ein og sér sé góð byrjun en það þarf að taka fleiri og ákveðnari skref og ég mun persónulega leggja til fleiri frumvörp væntanlega á næstu mánuðum sem taka á þessu sama vandamáli,“ segir Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokks. 

Karl er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, en fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokks eru meðflutningsmenn. Hann segir það ætti að greiða leið frumvarpsins í gegnum þingið.

„Ég ætla að vona það að þetta farið í gegn. Ég held að það auki verulega líkurnar á að þetta verði samþykkt að þarna eru þingmenn frá nánast öllum flokkum, það er ekki þarna þingmaður frá Sjálfstæðisflokknum. En ég held að þetta auki verulega líkurnar á því enda heyrist mér að það sé mikill stuðningur við það að taka á þessu máli, sem betur fer.“

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV