Ráðherratillögur skilja eftir sig eyðibýli

07.09.2017 - 08:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar segir að tillögur þær sem landbúnaðarráðherra hefur sett fram um vanda sauðfjárbænda muni valda fækkun í byggðum landsins og skilja eftir sig eyðibýli.

Hann vill fara aðrar leiðir til þess að leysa vandann. Á forsíðu Bændablaðsins 7. september er fjallað um tillögur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til lausnar á vanda sauðfjárbænda og rætt við Harald og formann Landssamtaka sauðfjárbænda. 

„Ég hefði viljað taka á þessu með öðrum hætti. Ég hefði viljað fara inn í að horfa ekki síður á fjárhag sláturhúsana og þeirra fyrirtækja sem eru úti í dreifðum byggðum. Ég nefni sláturhús í héruðum eins og Fjallalamb [í Norðurþingi], Blönduós og Vopnafirði og slíkum stöðum þar sem að atvinnulíf er nú frekar veikt.“

Þarf að fara í róttækari aðgerðir?

„Já, ég er ekkert að draga fjöður yfir að það þurfi ekki róttækari aðgerðir en þessi uppstilling eða þessi framsetning er ekki að hugnast mér.“

Þú nefnir í Bændablaðinu, kallar þetta eyðibýlastefnu hjá ráðherranum?

„Ég er ekki að festa það við ráðherrann sem núna situr. Ég horfi bara núna yfir söguna og hvernig við höfum staðið að umhverfi landbúnaðarins í gegnum mörg ár og þá er svona niðurskurður eða svona fækkunarhugmyndir, sem að voru hér fyrir áratugum síðan, þær skildu eftir eyðibýli og ef við værum að keyra þetta núna með þessum hætti þá er hægt að horfa meira til þess að byggja upp á jörðunum aðra starfsemi og að láta það sitja þá eftir heldur en að ganga þá bara hreint til verks og skilja þar eftir búlausar. Það er ekki það sem að byggðirnar þurfa á að halda.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Haraldur Benediktsson formaður fjárlaganefndar (D)