Ráðherra í ríkisstjórn nýtur trausts

Hanna Birna Kristjánsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Samsett mynd.


  • Prenta
  • Senda frétt

„Á meðan ráðherra er í ríkisstjórn nýtur hann trausts,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra aðspurður hvort hann beri áfram traust til Hönnu Birnu Kristjánsdóttir innanríkisráðherra eftir þær upplýsingar sem fram koma í bréfi umboðsmanns Alþingis til innanríkisráðherra.

„Eitthvað af þessu hafði komið fram áður og fyrir vikið vissi maður af því en auðvitað vissi ég ekki af öllu sem er útlistað á þessum 23 blaðsíðum eða hvað þetta var,“ sagði forsætisráðherra aðspurður hvort hann hefði vitað af því sem kom fram í bréfi umboðsmanns, áður en það var gert opinbert. 

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, sögðu í samtali við fréttastofu í dag að þau teldu að innanríkisráðherra ætti að segja af sér. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði á Facebook í dag að stjórnmálin ættu ekki að trufla rannsókn umboðsmanns Alþingis, stjórnarandstaðan ætti að bíða niðurstöðu umboðsmanns og í millitíðinni væri mál ráðherra í höndum stjórnarmeirihlutans. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti stuðningi við Hönnu Birnu í samtali við fréttastofu í morgun. „Ráðherrann hefur fullt traust til þess að svara fyrir þessar ásakanir, hún hefur traust til að gegna sínu embætti, það hefur ekkert breyst hvað það snertir,“ segir Bjarni.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku