Ráðherra endurskoðar ekki brottvísun stúlkna

09.09.2017 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Jón Þór Víglundsson
Dómsmálaráðherra mun ekki taka til endurskoðunar brottvísun ellefu og átta ára stúlkna og fjölskyldna þeirra. Á þessu ári hefur 36 börnum verið vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Tuttugu og tvö hafa fengið að dvelja hér.

Átta og ellefu ára stúlkur á flótta bíða nú eftir því að vera vísað úr landi ásamt fjölskyldum sínum. Þrjátíu og sex börnum hefur verið vísað úr landi það sem af er ári á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Tuttugu og tvö hafa fengið dvalarleyfi. Rúmlega hundrað og tuttugu umsóknum hefur verið synjað eða þær dregnar til baka. 

Haniye Maleki er 11 ára ríkisfangslaus stúlka sem bíður eftir því að vera vísað úr landi ásamt afgönskum föður sínum því yfirvöld hafa ákveðið að taka umsókn þeirra um hæli ekki til meðferðar.

Mary er átta ára og er frá Nígeríu. Hún bíður einnig eftir því að verða vísað úr landi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Grímur Sigurðsson
Mary (önnur frá hægri) og móðir hennar, Joy, ásamt vinum á mótmælunum á Austurvelli í dag.

Þrjátíu og sex öðrum börnum í þeirra stöðu hefur verið vísað úr landi á árinu á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Reglugerðin gildir innan Schengen-samstarfsins og veitir ríkjum heimild til að senda hælisleitanda til þess lands þar sem hann var fyrst skráður innan svæðisins. Umsókn þeirra um hæli er því ekki tekin til meðferðar hér á landi, heldur í öðru Schengen-ríki. 

Tuttugu og tveimur börnum á flótta hefur verið veitt dvalarleyfi hér það sem af er árinu, samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun. Flest eru frá Írak og Afghanistan. 36 börn hafa verið vísað úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Börnin eru frá Makedóníu, Albaníu, Írak, Afghanistan, Pakistan, Serbíu, Sómalíu, Marokkó og Egyptalandi. Það sem af er árinu hefur að auki 122 börnum verið synjað um hæli eða umsókn þeirra hefur verið dregin til baka. 

Gæta þarf réttinda barna á flótta

Umboðsmaður barna segir að gæta þurfi þess að réttindi barna á flótta sem hingað koma séu virt. Þau hafi sjálfstæð réttindi, óháð fjölskyldu sinni.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir að embættið hafi haft af því áhyggjur á síðustu misserum að staða þeirra barna sem leiti alþjóðlegrar verndar hér á landi sé veik. „Það ber að skoða þeirra mál með sjálfstæðum hætti og embættið hefur verið að benda á að það mætti gera mun betur á því sviði. Og eins þarf að hlusta á börnin og leyfa þeim að tjá sína skoðun og sitt sjónarhorn og við höfum vísbendingar um það hérna í gegnum þetta embætti að við getum gert betur á því sviði líka,“ segir Salvör.

Kemur ekki til greina að endurskoða

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra segir að það komi ekki til greina að taka mál Haniye og Mary til endurskoðunar. „Nei, það kemur ekki til greina að endurskoða mál sem dúkka hérna tilviljanakennt upp í umræðunni. Það kemur ekki til greina af minni hálfu sem ráðherra að taka fram fyrir hendurnar á sjálfstæðri stjórnsýslustofnun eins og kærunefnd í málum sem hafa fengið tvöfalda málsmeðferð hér á landi,“ segir hún.