Pétur fagnar frávísuninni

30.01.2017 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Pétur Gunnlaugsson, dagskrárgerðarmaður á Útvarpi Sögu, fagnar því að ákæru gegn sér fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs hafi verið vísað frá dómi. Hann telur að ákæran hafi verið pólitísk aðgerð gegn sér. „Þetta virðist vera gert eingöngu í þeim tilgangi að láta mig líta illa út í augum almennings.“

Pétur segir sig og Útvarp sögu hafa orðið fyrir miklum skaða af málinu. „Það er mjög slæmt þegar réttarkerfið á Íslandi er komið í hendur á pólitísku fólki sem misnotar kerfið eingöngu til að ná höggi á einstaklinga sem hafa skoðanir sem þeir sætta sig ekki við,“ segir Pétur. „Það eru ekki málefnaleg lögfræðileg rök í þessari ákæru. Þess vegna er henni vísað frá.“

Pétur var ákærður vegna ummæla sem féllu í þætti hans Línan er laus á Útvarpi Sögu. Þar hringja hlustendur inn og ræða hugðarefni sín við Pétur. Ákærunni var vísað frá. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, sagði að ummælin væru almenn eðlis og óljóst af ákæru hver þeirra ákæruvaldið teldi saknæm, því gæti orðið erfitt fyrir sakborning að verjast þeim.

Fleiri ákærur hafa verið gefnar út vegna hatursorðræðu. Pétur er verjandi í tveimur þeirra. Hann segist eiga von á að frávísunin í morgun hafi áhrif á þau mál. Hann segir að nú verði þess krafist að þeim tveimur málum verði vísað frá.