Óviðunandi biðlistar og kennitöluflakk

23.02.2016 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Ríkisendurskoðandi gerir alvarlegar athugasemdir við þjónustu við börn og unglinga sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda. Í nýrri skýrslu embættisins segir að það sé óviðunandi að þau geti þurft að bíða í eitt og hálft ár eftir nauðsynlegri þjónustu. Þá hvetur stofnunin stjórnvöld til að skilgreina hlutlæg viðmið um biðtíma eftir þjónustunni. Jakob Guðmundur Rúnarsson, einn höfunda skýrslunnar fór yfir málið í Síðdegisútvarpinu.

Ríkisskattsjóri hefur metið það sem svo að á hverju ári sé 80 milljörðum króna skotið undan skatti. Það er augljóslega engir smáaurar. Einn angi slíkra undanskota er kennitöluflakk - það er þegar skuldir fyrirtækis - oft við hið opinbera - eru skildar eftir í einu félagi sem er svo sett í þrot og annað félag stofnað um reksturinn. Nú hafa þingmenn fjögurra flokka lagt fram frumvarp sem er ætlað að taka á kennitöluflakki. Tveir þeirra komu í Síðdegisútvarpið; þau Bryndhildur Pétursdóttir og Karl Garðarsson, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Nú eru margir farnir að huga að sumarleyfum og skipuleggja ferðir til heitu landanna. En hvað er í boði? Hvert liggur straumurinn og hvernig er best að skipuleggja sig? Kristján Sigurjónsson útgefandi túristi.is, sem er vefur um ferðamál, var á línunni.

Rúnar Ingi Einarsson kvikmyndaleikstjóri fékk tilboð sem hann gat ekki hafnað: leikstýra nýjasta "tísernum" fyrir sjöttu seríu sjónvarpsþáttanna Game of Thrones, sem verður frumsýnd í apríl. Honum var flogið á sett þáttanna í Belfast, þar sem upptökurnar fóru fram.

Í dag fundaði Reykjavíkurráð ungmenna með borgarstjórn í Reykjavík á opnum fundi ráðhúsinu. Til umfjöllunar voru tillögur frá ungu fólki í Reykjavík um það sem að þeirra mati má betur fara í borginni. Hrafnhildur fór niður í ráðhús og hitti ungmennin rétt áður en þau stigu í pontu.

Við fórum líka yfir fréttir utan úr heimi með Guðjóni Helgasyni fréttamanni. Meðal annars lokun fangelsisins í Guantanamo, mannrán í Svíþjóð, innköllun og súkkulaði og laglausan kór.

Mynd með færslu
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi