Óvenjuleg jarðskjálftahrina í Heklu

26.03.2013 - 11:42
Hamfarir · Innlent · Hekla
Mynd með færslu
Martin Hensch á Veðurstofunni segir í samtali við vef RÚV að undanfarnar tvær vikur hafi verið óvenjuleg jarðskjálftavirkni í Heklu og mælst hafi sjö jarðskjálftar í norðausturhluta fjallsins á þessu tímabili. Því hafi almannavarnadeild ríkislögreglustjóra verið gert viðvart.

Martin segir þó ekkert benda til þess að eldgos sé að hefjast, engin kvikuhreyfing hafi mælst heldur séu þessar aðgerðir fyrst og fremst varúðarráðstöfun.

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, segir að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að eldgos sé að hefjast í Heklu. Engin bráðahætta sé á slíkum náttúruhamförum.

Ríkislögreglustjórinn og lögreglustjórinn á Hvolsvelli lýstu fyrir skömmu yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðhræringa í Heklu. Veðurstofan hækkaði eftirlitsstig Heklu í gult vegna flugumferðar, sem þýðir að eldfjallið sýnir óvenjulega virkni.