Óvænt tap gegn Portúgal í Kaplakrika

06.01.2016 - 21:25
Ísland fer illa af stað í undirbúningi sínum fyrir EM í handbolta því liðið lá fyrir liði Portúgal í Kaplakrika í kvöld, 28-32. Ísland hafði frumkvæðið framan af og leiddi í hálfleik en slök frammistaða í síðari hálfleik gaf Portúgal byr undir báða vængi.

Íslensku strákarnir höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik en tókst aldrei að slíta sig frá gestunum. Staðan í hálfleik 17-16.

Síðari hálfleikur einkenndist af töluverðum mistökum í sóknarleiknum og náðu gestirnir frá Portúgal mest fjögurra marka forystu. Þrátt fyrir áhlaup íslenska liðsins undir lokin sigldu Portúgalar góðum sigri í höfn, lokaúrslit 28-32.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur með 7 mörk og Aron Pálmason með 6. Björgvin Gústafsson var með 16 skot varin í íslenska markinu. Alfredo Quintana átti mjög góðan leik í marki Portúgal og varði 18 skot. Markahæstir hjá gestunum voru þeir Fabio Antunes og Gilberto Duarte, báðir með sex mörk.

Strákarnir okkar fá tækifæri til að bæta fyrir frammistöðuna í kvöld því liðin mætast aftur í Kaplakrika annað kvöld.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður