Óttast stórslys í ferðamennsku á Íslandi

08.01.2017 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Varaformaður Félags leiðsögumanna segir að byrgja verði brunninn áður en stórslys verður í ferðaþjónustu hér á landi. Hann segir að alltof mikið sé um að fyrirtæki fari með fólk í ferðir í viðsjárverðum veðrum. Allt regluverk og vottanir vanti í ferðaþjónustu á Íslandi.

Áströlsk hjón týndust í sjö tíma í vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins Mountaineers of Iceland við Langjökul á fimmtudaginn. Hjónin hafa gagnrýnt fyrirtækið og meðal annars sagt að aldrei hefði átt að fara í ferðina í ljósi þess að búið var að gefa út stormviðvörun. Þá var enginn leiðsögumaður aftast í hópnum sem fólkið var í, heldur bara fremst, og því tók enginn eftir því þegar hjónin urðu viðskila við hópinn. Einn eigenda Mountaineers of Iceland hefur á móti gagnrýnt hjónin og sagði í fréttum í gær að fyrirtækið hafi ekki gert nein mistök. Öll verkferli verði þó skoðuð.

Vantar allt regluverk

Snorri Ingason, varaformaður Félags leiðsögumanna, segir skýrt að ferðamenn séu á ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja og leiðsögumanna í ferðum sem þessum.

„Miðað við veðurspá þennan dag hefði sjálfsagt ekki átt að fara þessa ferð. Og svo hefur maður heyrt að það hafi ekki verið leiðsögumaður aftast í hópnum til að fylgjast með að fólkið væri. Og það er svona gullna reglan að svo sé, sérstaklega þegar um jöklaferðir er að ræða,“ segir Snorri.

En það eru engar svona fastmótaðar reglur um þetta er það?

„Nei það eru engar fastmótaðar reglur, þetta eru bara reglur sem hvert fyrirtæki setur fyrir sig og vegur og metur hvern einasta dag. En það vantar allt regluverk. Það vantar vottanir. Ekki bara um jöklaferðir heldur almennt í ferðaþjónustunni.“

Gerðu Mountaineers of Iceland mistök í þessu máli?

„Það er erfitt fyrir mig og okkur í Félagi leiðsögumanna að leggja mat á það. En þegar svona kemur upp ber að sýna auðmýkt og biðja þá sem lenda í svona atvikum afsökunar og reyna að læra af þessum mistökum.“

Eru fyrirtæki of djörf að fara með ferðamenn í ferðir í vondum veðrum?

„Almennt séð ekki. Menn eru varkárir og það er mikil umræða um þetta í  ferðageiranum eins og stendur. En það er alltof mikið um það að ferðaþjónustufyrirtæki séu að fara út með fólk í viðsjárverð veður. Við erum með mannslíf í höndunum og við viljum ekki bíða eftir þessu stóra slysi þar sem fólk deyr og fara þá að byrgja brunninn. Við þurfum að gera það áður og vera á varðbergi,“ segir Snorri.