Óttast að landsbyggðin verði útundan

10.01.2017 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fráfarandi forsætisráðherra, hefur áhyggjur af því að landsbyggðin verði útundan miðað við áherslur þeirra flokka sem mynda nýja ríkisstjórn og hvert þeir sæki mest af fylgi sínu. Hann segir áhyggjur sínar sérstaklega snúast að Bjartri framtíð og Viðreisn, nýju flokkunum í ríkisstjórn.

„Ég vil nú byrja á því að óska henni velfarnaðar fyrir land og þjóð, ég held að það skipti máli,“ segir Sigurður Ingi um nýju ríkisstjórnina. „Það sem ég er búinn að sjá af stjórnarsáttmálanum, af blaðamannafundinum, kom lítið á óvart. Ríkisstjórnin sem er að taka við tekur auðvitað við óvanalega góðu búi og verkefnin framundan hafa allir verið sammála um, uppbygging í heilbrigðis- og menntamálum. Ég heyrði þá reyndar ekki minnast á samgöngumálin en þau eru mjög mikilvæg líka.“

Sigurður Ingi segir helstu áhyggjur sínar snúa að því hvernig stjórnarstefnan birtist gagnvart landsbyggðinni. Í stjórnarsáttmálanum er talað um breytingar á landbúnaðar- og sjávarútvegskerfunum. „En ég hef áhyggjur af því, í ljósi þess hvar þessir flokkar sækja sitt aðalfylgi og þær áherslur sem þeir hafa verið með, að þá verði landsbyggðin útundan. Mér þykir mjög mikilvægt að ríkisstjórnin í landinu horfi á landið allt, þjóðina sem eina.“

Framsóknarflokkurinn er reiðubúin að veita góð ráð en einnig nauðsynlegt aðhald, segir Sigurður Ingi.

Ekki miklar breytingar

Sigurður Ingi segir að svo virðist sem stjórnarstefnan breytist ekki mikið. Áfram verði horft til stöðugleika í efnahagsmálum og tekið upp mál sem Framsóknarflokkurinn hafi talað fyrir, svo sem um endurskoðun peningastefnu og stöðugleikasjóð til að jafna sveiflur.

Mikilvægt að ráðast í endurskoðun stjórnarskrárinnar. „Ég vona bara að Guð viti á gott: að þeir hafi fundið einhverja leið til að taka þetta upp úr þeim hjólförum sem stjórnarskrármálið hefur verið fast í. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Við munum alla vega leggja okkar til með skynsamlegum hætti.