Ósammála túlkun ríkisins

14.11.2014 - 13:23
Mynd með færslu
Halldór Halldórson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að ríkið hafi aldrei staðið við yfirlýsingu um endurskoðun samnings frá 2011 um rekstur tónlistarskóla.

Samkvæmt honum átti ríkið að greiða fyrir kennslu í hljóðfæranámi á framhaldsskólastigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi. Skólastjórar nokkurra tónlistarskóla í Reykjavík óttast að sumir skólanna verði gjaldþrota á næstu vikum, finnst ekki lausn á rekstrarvanda þeirra. „Það hefur ekki gengið að fá ríkið til að bæta í samninginn eins og þörfin sýnir fram á, fjölda nemenda og svo framvegis. Svo er það hinn þátturinn að Reykjavíkurborg hefur túlkað samkomulagið þannig að þarna sé greiðsla algjörlega fyrir framhaldsnám í tónlist. Ég er ekki sammála þeirri túlkun og hef aldrei verið vegna þess að þetta var hugsað sem stuðningur við sveitarfélögin og var hugsað til þess að fella niður múra milli sveitarfélaga, en ekki að ríkið væri endilega að koma algjörlega í staðinn með þetta verkefni sveitarfélaga. Samkvæmt lögum er þetta verkefni sveitarfélaga,“ segir Halldór. 

Halldór segir að Reykjavíkurborg hafi hlaupið undir bagga með með því að leggja aukið fé í reksturinn. Þar sem þetta hafi komið upp í öðrum sveitarfélögum hafi þau hreinlega tekið á sig mismuninn. „Ég vil að ríkið gefi í og komi meira þarna inn. Ég er ekki tilbúinn að svara því nákvæmlega hvað þarf að gefa mikið í á þessari stundu, hvað af hálfu borgarinnar. Nú er ég bara að tala um túlkun á samningum. Það þarf alls staðar að halda í í rekstri borgarinnar, svo sannarlega. Þannig að ég ætla ekkert að fara að gefa einhverjar yfirlýsingar um að það eigi að setja meira fjármagn.“