Örtröð í Leifsstöð

05.06.2016 - 17:53
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Milla Óska Magnúsdóttir  -  RÚV
Örtröð myndaðist í Leifsstöð síðdegis þegar 25 flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli á tæpum tveimur klukkustundum. Milla Ósk Magnúsdóttir fréttamaður, sem var á staðnum, segir að mikil örtröð og ringulreið hafi myndast í farangursmóttökunni. Fólk hafi ekki vitað hvar farangur þess var. Oft hafi farangur úr þremur eða fjórum vélum verið á sama bandi.

Maður komst varla að beltunum, fríhöfnin fylltist, allt gólfið fylltist,

Segir Milla Ósk. Starfsmenn hafi reynt að leiðbeina fólki. Flugvél sem hún var á leið til Íslands með, tafðist um næstum þrjár klukkustundir úti, vegna þess að flugvél sem var á leið frá Íslandi hafði tafist á leið út í morgun.

Á vef Keflavíkurflugvallar má sjá hve þétt flugvélar lentu síðdegis. Þannig lentu 25 flugvélar á tæpum tveimur klukkustundum – frá klukkan 15:19 til 17:09.

Allt að tveggja klukkustunda tafir urðu í morgun á flugumferð um Keflavíkurflugvöll vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Þjónusta á Keflavíkurflugvelli takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá tvö í nótt til sjö í fyrramálið, vegna yfirvinnubannsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Milla Óska Magnúsdóttir  -  RÚV