Óperuhúsið í Sydney rýmt, mikill viðbúnaður

14.01.2016 - 04:43
Mynd með færslu
Sydney, stærsta borg Ástralíu.  Mynd: nn  -  wikipedia
Fjölmennt lögreglulið rýmdi óperuhúsið í Sydney í morgun og girti af stórt svæði þar um kring. Aðgerðir lögreglu teygðu sig einnig til hafnarinnar í Manly-hverfinu, sem liggur að ströndinni þar nærri. Upplýsingar eða hótanir á samfélagsmiðlum munu hafa vakið grun um að sprengja væri um borð í ferju sem sigla átti til Manly, segir á vef Sydney Morning Herald. Aðrar heimildir tala um grunsamlegan hlut í Óperuhúsinu. Engin sprengja fannst og hefur lögregluaðgerðum nú verið hætt.

Loftmyndir sem teknar voru úr þyrlu sýndu að svæðið umhverfis óperuhúsið, eitt helsta kennileiti Ástralíu, sem yfirleitt er iðandi af mannlífi, var algjörlega mannlaust meðan á aðgerðunum stóð, og ferjusiglingar til Manly-hverfisins voru stöðvaðar meðan á þeim stóð.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV