Ólíklegt að milljarða fjárfesting skili nokkru

16.01.2016 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Mjög ólíklegt er að rúmlega tveggja milljarða fjárfesting ríkissjóðs í Innviðafjárfestingabanka Asíu skili nokkru. Þetta er mat Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann gagnrýnir ferð fjármálaráðherra á stofnfund bankans í Kína.

Í mars í fyrra ákvað ríkisstjórnin að Ísland myndi sækjast eftir því að vera á meðal stofnaðila að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Var það gert að tillögu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Á heimasíðu fjármálaráðuneytisins segir að Innviðafjárfestingabanki Asíu sé fjölþjóðlegur þróunarbanki sem muni styðja við aðgerðir til að efla innviði í Asíu sem sé sá hluti heimsins þar sem hagvöxtur sé hvað mestur. Þessi þróun kalli á stóraukna uppbyggingu innviða í Asíu til að auðvelda flæði vöru og þjónustu innan álfunnar og milli hennar og fjarlægari svæða. Aðild Íslands að bankanum muni styrkja enn frekar góð samskipti Íslands og Asíuríkja og styðja við nýja vaxtarbrodda á viðskiptasviðinu sem geti þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf. Heildarskuldbinding Íslands varðandi stofnfé bankans nemur 2,3 milljörðum króna.

Nú um helgina er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á stofnfundi bankans í Peking í Kína. Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis gagnrýnir þessa fjárfestingu á Facebook-síðu sinni, og segir að Bjarni fari erindisleysu til Kína.

Vonandi verður skemmtilegt fyrir Bjarna að ferðast til Kína. Það er hins vegar alveg óvíst hvort hann á þangað nokkurt...

Posted by Frosti Sigurjonsson on 15. janúar 2016

Frosti vildi ekki veita viðtal vegna málsins í morgun og vísaði á Facebook-síðu sína. Þar segir hann alls óvíst hvort Bjarni eigi nokkurt erindi til Kína því Alþingi hafi ekki staðfest samþykktir bankans. Án þess verði Ísland ekki aðili að honum. Samþykktir bankans krefjist undanþágu bankans og starfsmanna hans frá sköttum og undanþágu frá fjármálaeftirliti. Frosti segir að bankinn verði því í raun hafinn yfir lög og reglur Íslands. Slík fríðindi geti enginn samþykkt án heimildar Alþingis.

Þá gagnrýnir Frosti að rúmir tveir milljarðar séu settir í aðeins 0,028 prósenta hlut í bankanum. Ísland muni engin áhrif hafa í honum og fái engan stjórnarmann. Það sé mjög ólíklegt að þessi fjárfesting skili íslenskum skattgreiðendum nokkru verði hún að veruleika.

 

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV