Ólíklegt að gos fari af stað í Öskju

05.01.2015 - 00:15
Mynd með færslu
Ólíklegt er að Bárðarbunga komi af stað gosi í Öskju þótt hraunjaðarinn úr eldgosinu í Holuhrauni nálgist nú Þorvaldshraun og Öskju. Þetta segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur. Líklegra er að eldstöðin hafi áhrif á aðrar í nágrenninu eins og til dæmis Tungnafellsjökul.

Fjölmargar eldstöðvar eru norðan og vestan Vatnajökuls og talið er að þær tengist á einhvern hátt. Sú eldstöð sem nú veldur gosi í Holuhrauni er líklega Bárðarbunga. Allt um kring eru svo þekktar eldstöðvar eins og til dæmis Torfajökull, Tungnafellsjökull, Hamarinn eða Lokahryggur; Grímsvötn, Kverkfjöll og Askja.

Bárðarbunga er þekkt fyrir að hafa áhrif á aðrar eldstöðvar. Sem dæmi má nefna svokallað Landnámsgos árið 871. Það er talið hafa verið samvinnuverkefni Bárðarbungu og Torfajökuls. Í Veiðivatna- og Laugahraunsgosunum 1477 hleypti stór gangur frá Bárðarbungueldstöðvarkerfinu upp gosi í Torfajökli. Nýlegra dæmi er Gjálpargosið 1996; þá er talið að gangur hafi hlaupið úr Bárðarbungu til suðurs og hleypt af stað gosi undir jöklinum. 

Þegar staðið er í Þorvaldshrauni, sem rann úr Öskju á þriðja áratug síðustu aldar, og horft yfir til Holuhrauns, þar sem að þar er allt á fullu, velta einhverjir því eflaust fyrir sér hvort þessar eldstöðvar séu tengdar, það er að segja Bárðarbunga og Askja, enda ekki svo langt á milli þeirra. „Vissulega fingrast saman þessar tvær eldstöðvar því að hraunin sem eru þarna allt í kring þau eru að öllum líkindum tengd Öskjueldstöðvarkerfinu en Holuhraun, gamla Holuhraunsgosið og þetta nýja gos núna, þetta hefur svona efnafræðileg fingraför Bárðarbungu. Svo það er Bárðarbungugos ótvírætt,“ segir Páll. 

Getur það enn gerst að Bárðarbunga hleypi Öskju af stað? „Eftir því sem þessi atburðarrás festir sig í sessi þá verður það ólíklegra en hugsanlegar atburðarrásir í tengslum við þetta allt saman eru gríðarlega margar einmitt vegna þess að það eru hugsanleg áhrif á nálægar eldstöðvar og þar ber í augnablikinu hæst Tungnafellsjökul. Við sjáum nánast á hverjum degi núna skjálfta í Tungnafellsjökli sem eru greinilega tengdir þessum atburðum líka þannig að Bárðarbunga er að reyna að hleypa upp einhverjum æsingi í Tungnafellsjökli.“