Ólífuolíuframleiðsla dregst saman eftir þurrka

17.07.2017 - 20:45
epa04535716 (FILE) A file picture dated 24 June 2010 shows a tomato and lettuce salad being dressed with olive oil in a restaurant in Gran Canaria, Canary Islands, Spain. 2014's poor olive harvest in the world's top producing countries Spain and
 Mynd: EPA  -  EPA FILES
Bændur í Suður-Evrópu óttast gríðarlegar búsifjar vegna mestu þurrka sem þar hafa orðið áratugum saman. Horfur eru á að ólífuolíuframleiðsla dragist saman um meira en helming á þessu ári.

Bændur á Spáni og Ítalíu hafa ekki upplifað verri þurrka svo áratugum skiptir og horfur eru á allt að 60 prósenta uppskerubresti. Ítölsku búnaðarsamtökin áætla að þurrkarnir þar í landi komi til með að kosta bændur landsins yfir einn milljarð evra, andvirði um 120 milljarða íslenskra króna. 

Kornuppskeran í þessum löndum stefnir í að vera sú rýrasta í meira en 20 ár og svipaða sögu er að segja af ólífum og möndlum. Verst úti verða bændur á mið-Spáni, í Kastilíu og León, en þar er þegar ljóst að 60-70% uppskerunnar eru ónýt.

Margir bændur ætla ekki einu sinni að vinna uppskeruna af ökrum sínum, þar sem afraksturinn dygði ekki fyrir launum verkamannanna. 

Ítalía og Spánn eru stærstu framleiðendur ólífuolíu í heiminum. Vegna uppskerubrests á ólífum er útlit fyrir að olíuframleiðslan í ár verði 60 prósentum minni en í meðalári. 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV