Ólga vegna afskipta Kaupfélags Skagfirðinga

30.01.2016 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Ólga er meðal bænda vegna afskipta Kaupfélags Skagfirðinga af gerð nýrra búvörusamninga. Fulltrúi Kaupfélags Skagfirðinga í stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði skrifaði undir yfirlýsingu þar sem varað er við slíkum afskiptum.

Skagfirskir sauðfjárbændur vildu ekki vera með
Skagfirðingar vilja fá Alþingismenn Norðvesturkjördæmis á fund sinn vegna nýrra búvörusamninga, eins og kom fram í fréttum í gær. Kaupfélag Skagfirðinga, félag kúabænda í firðinum og sveitarfélagið sendu þingmönnunum bréf þess efnis. Í fyrri útgáfu bréfsins, sem skrifað er á bréfsefni Kaupfélagsins, en var aldrei sent út, er þó gengið lengra og þingmenn hvattir til að stöðva viðræður ríkisins og bænda.

Nafn Félags sauðfjárbænda í Skagafirði var prentað undir fyrri útgáfuna, en félagið vill árétta að það tók ekki þátt í því bréfi sem var sent þingmönnunum. Stjórn félagsins tilkynni Kaupfélaginu að hún sæi sér ekki fært að skrifa undir það þar sem samninganefnd sauðfjárbænda væri að störfum og stjórnin ekki búin að sjá endanlega niðurstöðu.

„Dálítið óvenjuleg“ afskipti
Samkvæmt heimildum fréttastofu er talsverð ólga meðal bænda vegna afskipta Kaupfélags Skagfirðinga af gerð búvörusamninganna, en samningaviðræður munu vera á lokametrunum. Kaupfélagið leggst gegn afnámi mjólkurkvóta, sem er eitt af meginatriðum samninganna. Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, segir í samtali við fréttastofu að afskipti kaupfélagsins séu dálítið óvenjuleg.

Í gær birti stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði yfirlýsingu, þar sem varað er við því að aðrir komi með beinum hætti að samningunum en ríkið og bændur. Þar vilji margir setja sín fingraför á. Athygli vekur að sá sem skrifar undir þessa yfirlýsingu er Rögnvaldur Ólafsson, bóndi í Skagafirði og fulltrúi Kaupfélags Skagfirðinga í stjórn samtakanna. Kaupfélagið er hvergi nefnt á nafn í yfirlýsingunni, en svo virðist sem ekki sé einhugur meðal kaupfélagsmanna.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV