Ólafur Ragnar vill ekki tjá sig

17.07.2014 - 14:16
Mynd með færslu
Forseti Íslands vill ekki svara því hvort hann hyggist sitja út kjörtímabilið, eða hætta fyrr, eins og hann velti upp í kosningabaráttunni 2012. Forsetaritari segir að umræða í kosningabaráttu verði ekki framlengd inn í embættistíð forsetans.

Setti fyrirvara við framboðið

Ólafur Ragnar Grímsson tók við embætti forseta Íslands í fimmta skipti þann 1. ágúst 2012. Kjörtímabilið er því hálfnað um næstu mánaðamót. Fréttastofa óskaði í gær eftir viðtali við forsetann, til að spyrja hann út í áform hans á seinni hluta kjörtímabilsins.

Tilefnið eru þessi orð sem hann lét falla daginn sem hann tilkynnti um framboð í mars 2012. „Og eftir þónokkra umhugsun þá varð það niðurstaða mín að verða við þessum óskum, en þó með þeim fyrirvara, eins og ég nefndi í yfirlýsingunni, að þegar vonandi allt verður orðið stöðugra og kyrrð hefur færst yfir, bæði varðandi stjórnskipun og stöðu mála í landinu, þá hafi menn á því skilning að ég muni þá ekki sitja út allt næsta kjörtímabil, og forsetakosningar færu þá fram fyrr en ella.“

Ólafur vísar þarna til yfirlýsingar sem hann sendi frá sér um framboð, en þar er þessi afstaða hans sett fram með svipuðum hætti.

Ræðir ekki kosningabaráttu

Fréttastofa fékk svar við viðtalsbeiðninni í morgun. Örnólfur Thorsson forsetaritari segir að forsetinn ætli ekki að veita viðtal um þetta efni, enda ræði hann ekki það sem fram hafi komið í kosningabaráttu, eftir að hann hefur tekið við embætti. Umræða í kosningabaráttu verði ekki framlengd inn í embættistíð forsetans. Þá taldi Örnólfur að það hefði komið nokkuð skýrt fram í kosningabaráttunni að forsetinn ætlaði að sitja út kjörtímabilið.

Ítrekaðar óskir um viðtöl

Fréttastofa hefur ítrekað óskað eftir fyrirfram skipulögðu viðtali við forsetann, um hin ýmsu málefni, en ekki fengið á þessu ári. Frá áramótum hefur forsetinn tvisvar rætt við fréttastofu RÚV, annars vegar við opnum Eldheima í Vestmannaeyjum og hins vegar í opinberri heimsókn til Egilsstaða.