Ólafur Ragnar húðskammaði Gordon Brown

23.01.2013 - 16:53
Mynd með færslu
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, réðst í dag harkalega á Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss.

Í viðtali við Sky fréttastofuna sagði forsetinn að Íslendingar myndu aldrei gleyma meðferðinni sem þeir fengu hjá breska forsætisráðherranum í fjármálakreppunni 2008, þegar hann beitti hryðjuverkalögum á Íslendinga vegna Icesave reikninganna. Í viðtalinu sagði Ólafur Ragnar að Gordon Brown hefði orðið sér til ævarandi skammar fyrir að setja íslensku þjóðina á bekk með al Kaída og talibönum. Fyrir vikið yrði honum ekki gleymt á Íslandi þótt Bretar hefðu fyrir löngu þurrkað hann út úr minni sínu.

Ólafur var einnig spurður útí aðild Íslendinga að Evrópusambandinu og sagðist ekki gera ráð fyrir því að Íslendingar samþykktu aðild að sambandinu á meðan hann væri enn forseti. Orðrétt sagði forsetinn. „Ef þú vilt að ég veðji, yrði svar mitt afdráttarlaust nei.“

Gordon Brown er einnig staddur á efnahagsráðstefnunni í Davos þar sem hann tekur þátt í pallborðsumræðum um stefnumál ungs fólks. Brown hefur þau mál einmitt á sinni könnu sem góðgjörðasendiherra Sameinuðu þjóðanna.